Ferðaþjónustuaðilar hvattir til að senda ábendingar um leyfislausa aðila

Ferðamálastofa hefur sent frá sér tilkynningu þar sem ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til þess að senda Ferðamálastofu ábendingar um aðila sem reka leyfisskylda ferðaþjónustu án tilskilinna leyfa.

Fram kemur að allar slíkar ábendingar séu teknar alvarlega, samband verði haft við viðkomandi og gripið til viðeigandi aðgerða.

Þá segir að það sé bæði öryggismál og sanngirnismál að leyfislausir aðilar komist ekki upp með að halda úti rekstri hérlendis og Ferðamálastofa taki þetta hlutverk sitt alvarlega.

Fram kemur að ef ekki sé brugðist við hafi Ferðamálastofa samkvæmt lögum ýmis úrræði. Þannig skal hver sá sem rekur leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða ef starfsemi samkvæmt útgefnu leyfi er ekki í samræmi við leyfið, sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Ef leyfisskyld starfsemi er rekin án leyfis ber lögreglustjóra, að beiðni Ferðamálastofu, að stöðva starfsemina án fyrirvara eða aðvörunar, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun vefs.

Ferðamálastofu er jafnframt heimilt að leggja dagsektir á aðila sem uppfylla ekki kröfur laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem varða tryggingarskyldu og á þá sem stunda leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis.

Bendir Ferðamálastofa á að hægt sé að fara á eftirfarandi vefslóð til að koma ábendingum á framfæri

https://www.ferdamalastofa.is/is/studningur/kvartanir-og-abendingar

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila