Fjallað um mikilvægi alþjóðaflugs fyrir Ísland á þingi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, ávarpaði þing Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) í Montréal fyrr í dag. Ráðherra gerði að umfjöllunarefni sínu mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á vettvangi stofnunarinnar, umhverfismál og mikilvægi alþjóðaflugs fyrir Ísland. Tilefni ávarps ráðherra er framboð Íslands til setu í aðalráði ICAO, en kosning fer fram næstkomandi laugardag. Alls 193 þjóðir eiga aðild að ICAO.

Framboð Íslands er undir merkjum NORDICAO, samstarfs Norðurlandanna, Eistlands og Lettlands hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni til áratuga. Samvinnan felur m.a. í sér að ríkin skiptast á að sinna aðal- og varafulltrúastöðum í aðalráði stofnunarinnar. Undanfarin þrjú ár hefur Ísland átt varafulltrúa í ráðinu. Hljóti Ísland kosningu á laugardaginn mun íslenski fulltrúinn taka við stöðu aðalfulltrúa af Finnlandi, til næstu þriggja ára.

Ráðherra gerði einnig að umfjöllunarefni sínu ýmis aðkallandi málefni þingsins. Má þar nefna umhverfismál tengd flugi og fyrirætlanir ríkja um að draga úr losun, vaxandi áherslu á netöryggi og gildi samvinnu og samhæfingar þjóða heimsins í þágu endurreisnar almannaflugs eftir heimsfaraldur.

Ísland hefur verið aðildarríki að Alþjóðaflugmálastofnuninni ICAO frá stofnun hennar árið 1944. Auk ráðherra eru þátttakendur Íslands á þinginu fulltrúar frá innviðaráðuneytinu og Samgöngustofu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila