Fjármálaráðherra hefði getað komið í veg fyrir kaupin á TM

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra hafði heimildir til þess að grípa inn í fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM á fyrri stigum málsins. Hún kaus að gera það ekki þó hún hefði til þess heimildir samkvæmt lögum og þrátt fyrir að henni væri vel kunnugt um að kaupin stóðu til. Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Jóhannn Páll segir að það komi á óvart að hún hafi ekki beitt sínum heimildum gegn sölunni sér í lagi þar sem hún samrýmist ekki eigendastefnu ríkisins. Þá segir Jóhann að Umboðsmaður Alþingis hafi bent á í tengslum við söluna á Íslandsbanka að fjármálaráðherra hafi samkvæmt lögum um stjórnunar og eftirlitsskyldu heimild til að beita sér. Að auki hafi fjármálaráðherra sérstaka heimild til þess að beina tilmælum til Bankasýslunnar um einstök mál.

Fjármálaráðherra telur sig ekki bera ábyrgð á málinu

Jóhann Páll segir að það virðist sem svo að ráðherra setja málið upp á þann hátt að hún beri ekki ábyrgð á málinu og það sé á einhvers konar sjálfsstýringu. Jóhann segir lítinn brag vera á framkomu ráðherra í málinu sem komi fram með eftiráskýringar og sé með skeytasendingar og hálfgerðar hótanir gagnvart samstarfsflokkunum með því að láta það flakka á Facebook að verði af kaupunum verði að selja Landsbankann samtímis.

Samfylkingin vill ekki selja Landsbankann

Hann segir afstöðu Samfylkingarinnar vera skýra hvað varði sölu á Landsbankanum. Samfylkingin sé eindregið á móti sölu á Landsbankanum og það sé grundvallaratriði að ríkið eigi Landsbankann og veiti þannig ákveðna kjölfestu á fjármálamarkaði.

Hlusta má á nánari umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila