Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2018 birt

Fjármála og efnahagsráðuneytið hefur birt á vef sínum álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2018. Álögð gjöld eru samtals 193,8 ma.kr. sem er hækkun um 6,9 ma.kr. á milli ára, en breytingar einstakra skatttegunda eru bæði til hækkunar og lækkunar.

Í tilkynningu segir að  stærstu breytingarnar snerti tryggingagjald, sem hækkar um 8,8 ma.kr. og tekjuskatt lögaðila, sem lækkar um 2,5 ma.kr. Rétt er þó að hafa í huga að hér er um að ræða svokallaða frumálagningu sem getur tekið ákveðnum breytingum síðar.


Þá segir í tilkynningunni að lögaðilum á grunnskrá hafi fjölgað um 1.390, eða 3,1% milli ára, og eru nú 45.492. Aftur á móti fækkar félögum sem greiða tekjuskatt um 286, eða 1,6% milli ára. Skil framtala þriðja árið í röð voru mjög góð og hafa í raun aldrei verið betri en síðustu þrjú árin. Færri sæta því áætlunum en verið hefur. Sá árangur leiðir til færri kæra og endurákvarðana og skapar meiri vissu um að álagningin skili sér í ríkissjóð.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila