Fjölskylduhjálpin leitar til almennings eftir frjálsum framlögum

Fjölskylduhjálp Íslands hefur hafið söfnunarátak þar sem almenningi er boðið að leggja starfi Fjölskylduhjálpar Íslands lið með frjálsum framlögum.

Framlögin ætlar Fjölskylduhjálp Íslands að nýta til þess að kaupa matvæli svo samtökin geti veitt nauðsynlega aðstoð til skjólstæðinga sinna en mikil þörf er á mataraðstoð. Sem dæmi þá úthlutaði Fjölskylduhjálpin 28.643 matargjöfum árið 2023 og voru um 45.904 einstaklingar sem fengu þar aðstoð.

Í tilkynningu frá Fjölskylduhjálpinni segir:

„Fjölskylduhjálp Íslands eru hjálparsamtök sem hafa frá stofnun haft að leiðarljósi að hjálpa þeim sem minna mega sín og eru skjólstæðingarnir öryrkjar, einstæðir foreldrar, fjölskyldur með lágar tekjur, eldri
borgarar, fólk án atvinnu og heimilislaust fólk. Því óskar Fjölskylduhjálp Íslands, eins og áður sagði, eftir frjálsu framlagi til stuðnings starfseminni svo aðstoða megi sem flesta sem sækja eftir aðstoð samtakanna nú fyrir Páskana og áfram í vor.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila