Fjölskyldusameiningin flókin framkvæmd – Yfirvöld ytra vilja ekki Hamasliða til Íslands

Það er beinlínis rangt sem haldið er fram af mótmælendum á Austurvelli og jafnvel þingmönnum að ekki sé verið að gera neitt í því að sameina fjölskyldur Palestínumanna sem hér búa. Framkvæmdin er flókin og krefjast Egyptar og Ísraelsmenn að nafnalisti með nöfnum þeirra sem hingað fá að koma verði uppfærður. Það sé gert í varúðarskyni svo ekki sé fólk á þeim lista sem tengist Hamas. Þetta sagði Birgir Þórarinsson í símatímanum með Arnþrúði Karlsdóttur í morgun.

Birgir segir að stjórnvöld hafi í janúar sent stjórnvöldum í Egyptalandi erindi þar sem spurt var hvernig hægt væri að koma þeim 128 einstaklingum sem hér hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar til landsins. Mánuði eftir að erindið hafði verið sent barst svar frá Egyptum þar sem fram kemur að uppfæra þurfi nafnalista sem sendur var með nöfnum fólksins því bæði yfirvöld í Egyptalandi og Ísrael vilji tryggja að ekki leynist Hamasliðar eða fólk sem tengist Hamas á listanum.

Íslandi ætlað að flytja 128 einstaklinga frá Gaza til Kairo

Birgir segir að í upphafi hafi menn haldið að nóg væri að senda nafnalistann ásamt vegabréfsáritun og að þá myndi Flóttamannastofnun SÞ taka á móti fólkinu við landamæri Rafha landamærastöðina. Það reyndist hins vegar vera misskilningur því stofnunin tekur á móti fólkinu í Kairo. Þannig er það á ábyrgð stjórnvalda á Íslandi að flytja þá 128 einstaklinga frá Gaza til Kairo.

Gríðarlega kostnaðarsamt að fá fólk frá Palestínu

Þetta er því eðli málsins samkvæmt afar flókin, áhættusöm og dýr aðgerð. Til að mynda hafi Norðmenn verið að vinna að svipuðum flutningum og þar hafa 100 starfsmenn á vegum þeirra þurft að koma að framkvæmdinni svo hún væri yfir höfuð gerleg. Ísland hafi ekki svo marga starfsmenn á sínum snærum til þess að sinna verkefninu og auk þess er kostnaðurinn gríðarlegur og hleypur bráðabirða kostnaðarmat á tugum milljóna króna. Bigir ítrekar að það sé einnig ekkert í lögum sem skyldi stjórnvöld til þess að fara í þessar aðgerðir.

Kostnaðurinn lendir á íslenskum skattborgurum

Aðspurður um hvort þingið hafi yfir höfuð leyfi til þess að setja fjármuni í slíkt verkefni, sér í lagi í ljósi þess að nú séu Grindvíkingar á hrakhólum og hér séu aðrir sem einnig séu heimilislausir að leita í gistiskýli segir Birgir að fjölskyldusamneiningar af þessu tagi hafi ekki tíðkast hérlendis hingað til. Ljóst sé að ef af verður lendi kostnaðurinn á skattborgurum og þá verður einnig að hafa í huga að ef af verður þá sé búið að skapa fordæmi. Því sé hætta á að holskefla slíkra krafna muni koma fram. Það gæti orðið til þess að hælisleitendakerfið muni hrynja.

Loka á flæði hælisleitenda hingað

Birgir segir að það sé hans skoðun að ástandið hér á landi, til að mynda í húsnæðismálum sé svo slæmt að honum finnist að skrúfa eigi algerlega fyrir flæði hælislsietenda til landsins.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila