Fjórðungur fólks á vinnufærum aldri í Svíþjóð getur ekki séð fyrir sér sjálft

Sænska atvinnumiðlunin „arbetsförmedlingen“ hefur í mörg ár verið harðlega gagnrýnd fyrir slappleika og getuleysi við að hjálpa fólki út á vinnumarkaðinn. Ný skýrsla sýnir að gagnrýnendur hafa haft á réttu að standa (mynd: News Oresund/CC 2.0).

Allt að fjórðungur fólks á vinnufærum aldri í Svíþjóð er ekki sjálfbjarga, skrifa sænsku atvinnurekendasamtökin Sænskt viðskiptalíf „Svenskt näringsliv.“ Samtökin fara fram á meiri kröfur um þátttöku fólks á vinnumarkaði og að fólki verði gert kleift að sjá fyrir sér sjálft.

Í nýrri ítarlegri skýrslu „Umbætur fyrir fleiri í atvinnu“ (sjá neðar á síðunni) hafa Sven-Olov Daunfeldt hagfræðingur og Johan Lidefelt þjóðhagfræðingur skilgreint, hversu algengt það er, að fólk í Svíþjóð sé ósjálfbjarga. Í niðurstöðunum má sjá að 1,3 milljónir manna geta ekki séð um sig sjálf og eru ekki við nám en námsmenn eru ekki með í þessum tölum.

Þeir sem hafa mánaðartekjur upp á 190 þúsund ísl. kr. eru taldir geta bjargað sér

Viðmiðun þeirra Sven-Olov og Johan Lidefelt er skilgreining samtaka athafnamanna um að einstaklingur, sem hefur mánaðartekjur upp á um 13.500 sænskar krónur (um 190 þúsund íslenskar krónur), sé sjálfbjarga. Skýrslan sýnir að fjórðungur allra Svía á vinnufærum aldri nær ekki þessum upphæðum. Árið 2020 höfðu 57% þeirra sem voru ósjálfbjarga ekki verið sjálfbjarga undanfarin fimm ár, sem þýðir að um 700.000 manns náðu ekki þessu tekjulágmarki á sex ára tímabili.

Um það bil hálf milljón manna voru einnig með árstekjur undir grunnverðmiðun, þ.e.a.s. 47.200 sænskar krónur (samsvarar 655 þúsund íslenskum krónum). Með öðrum orðum þá vantaði þriðjung hópsins sem ekki getur framfært sér að miklu leyti vinnutekjur í sex ár.

Daunfeldt og Lidefelt telja að meðal annars þurfi að gera meiri kröfur um virkni þess fólks sem er ósjálfbjarga og að valkosturinn við atvinnu eigi ekki að vera tómstundir. Annar mikilvægur valkostur að þeirra mati gæti verið svokölluð inngangsstörf sem fela meðal annars í sér tækifæri fyrir frumkvöðla að ráða til dæmis innflytjendur og langtímaatvinnulausa til starfa með lægri tilkostnaði (niðurgreitt með skattfé).

Þeir sem eru háðir lifibrauði frá ríkinu eru fastir í langtíma atvinnuleysisgildru

Í formála skýrslunnar segir m.a.:

  1. Meira en 1,3 milljónir einstaklinga á vinnualdri (námsmenn ekki taldir með) voru ekki sjálfbjarga árið 2020, sem samsvarar fjórða hverjum einstaklingi á aldrinum 20–64 ára. Fjórar milljónir manna á vinnualdri eru með einar launatekjur sem gerir það að verkum, að þeir bera ábyrgð bæði á eigin framfærslu og annarra. Þetta eru 38,5% af íbúum landsins.
  2. Sjálfsbjargargeta er umtalsvert lægri meðal erlendra fæddra en meðal innlendra fæddra (óháð menntunarstigi og aldurshópum) og meðal lágmenntaðra miðað við hámenntaða.
  3. Stór hluti þeirra sem ekki flokkast sem sjálfbjarga hafa engar eða mjög lágar vinnutekjur. Sá hópur sem ekki hefur náð árlegum starfstekjum að verðlagsgrunni (47.200 SEK) var yfir 880.000 manns árið 2020.
  4. Fólk sem ekki er sjálfbjarga hefur almennt ekki verið það í mörg ár. Um 60% þeirra sem ekki voru sjálfbjarga árið 2020 gátu ekki séð fyrir sér á neinu ári síðan 2015. Þetta bendir til þess að um 700.000 manns hafi ekki verið sjálfbjarga samfleytt í sex ár.
  5. Rúmlega þriðjungur þeirra sem voru ósjálfbjarga árið 2020 hafði tekjur lægri en grunnverðmiðun sex ár í röð, sem samsvarar um 470.000 manns. Hættan er mikil að margir af þessum einstaklingum munu aldrei geta framfleytt sér, sama hvaða umbótum verður hrint í framkvæmd.
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila