Fjórir áfram í gæsluvarðhaldi eftir árás á Bankastræti Club

Gæsluvarðhald yfir fjórum þeirra fjölda manna sem tók þátt í hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club hefur verið framlengt. Gæsluvarðhald yfir sex einstaklingum í dag sem tengjast árásinni átti að renna út í dag og ákvað lögregla að fara fram á að fjórir þeirra yrðu áfram í gæsluvarðhaldi og féllst Héraðsdómur á kröfuna. Tveimur af þeim sem hefur því verið sleppt.

Að sögn lögreglu miðar rannsókn málsins vel áfram en um er að ræða umfangsmesta líkamsárásarmál í sögu lögreglu enda fjölmargir sem komu að árásinni. Samkvæmt upplýsingum hefur farið mikill tími í að greina hvaða einstaklingar það voru sem höfðu sig mest í frammi og taldir eru hafa stungið mennina þrjá sem urðu fyrir árásinni, enda báru allir þeir menn sem að árásinni stóðu grímu.

Þá hefur einum lögreglumanni verið vikið frá störfum fyrir að hafa lekið myndbandi af árásinni en við yfirheyrslur viðurkenndi lögreglumaðurinn að hann hefði lekið myndbandinu en ekki búist við því að fjölmiðlar kæmust á snoðir um myndbandið og myndu birta það. Maðurinn á yfir höfði sér ákæru fyrir brot í opinberu starfi en Héraðssaksóknari fer með rannsókn málsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila