Flóamönnum fyrri tíma gerð skil í nýrri bók Guðna Ágústssonar

Guðni Ágústsson sendi frá sér á dögunum bókina Flói bernsku minnar en í bókinni rifjar Guðni meðal annars líf og störf fólksins í Flóanum á fyrri tíð. Í síðdegisútvarpinu í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Guðna um bókina og fólkið sem byggði sveitina þar sem Guðni sleit barnsskónum, fólkið sem Guðni segir hafa verið mikið merkisfólk.

Guðni segir að hann hafi átt lengi þann draum að minnast þessa fólks sem tilheyrði aldamótakynslóðinni og ýmissa atburða sem áttu sér stað á þessum tíma og þá segir Guðni hann tengja þessa merku sögu ákveðnum þráðum sem ná til dagsins í dag . Hann segir að þó bókin fjalli um fólk sem bjó í Flóanum þekki þó flestir sem lesi bókina til þeirra manngerða sem fjallað er um því fólk til sveita á Íslandi hafi almennt verið mikið menningarfólk, sagnafólk, hagyrðingar og fleira sem Guðni gerir góð skil í bókinni.

„þannig að ég held að þeir Íslendingar hringinn í kringum landið sem lesa bókina munu þekkja til sinna heimahaga á einhvern máta í þessari bók og tengi við það sem fjallað er um“segir Guðni.

Það eru þó ekki eingöngu Flóamenn fortíðar sem eiga sér merkilega sögu og bendir Guðni á að hann telji orðið Bobby Fisher stórmeistara í skák sem sveitunga sinn og um hann er meðal annars fjallað í bókinni enda sennilega einn heimsfrægasti maður sem jarðsettur sé í íslenskum kirkjugarði en eins og kunnugt er hvílir Fisher í Laugardælakirkjugarði rétt austan við Selfoss. Í bókinni greinir Guðni meðal annars frá afar sterkum viðbrögðum Bandaríkjanna við því þegar Fisher fékk ríkisborgararétt á Íslandi, viðbrögðum sem eiga sér enga hliðstæðu.

Þá er í bókinni einnig sagt frá Agli Thorarensen sem oft er sagður guðfaðir Selfoss sem átti sinn þátt í Flóaáveitunni frægu og varð síðar kaupfélagsstjóri og formaður Mjólkurbúsins og segir Guðni að nú sé meðal annars risin stytta af þeim mæta manni.

Bók Guðna sem eins og fyrr segir ber heitið Flói bernsku minnar er skráð af Guðjóni Ragnari Jónassyni og er það bókaútgáfan Veröld sem gefur út bókina.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila