Forsetaframboð Katrínar þýðir að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra

Ef Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tæki þá ákvörðun að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands er fyrirsjánalegt að Sigurður Ingi Jóhannsson yrði forsætisráðherra en það væri mjög sérkennilegt skref ef Vinstri grænir létu frá sér forsætisráðherrastólinn bara af því Katrínu langar að verða forseti. Þetta var meðal þess sem fram kom í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag en gestur hennar var Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Baldur segir að þá væri hægt að velta fyrir sér hvað Vinstri grænir standi raunverulega fyrir og hvað yrði um málefnin sem þeir stæðu fyrir ef til slíkrar stöðu kæmi. Forsætisráðherrann sé klárlega áhrifamesti ráðherrann og hér í eina tíð hafi aðrir ráðherrar ekki tekið ákvarðanir nema forsætisráðherra gæti sæst á þær, þannig hefði forsætisráðherra haft óbeint neitunarvald. Svo ef þetta sé farið að snúast um stóla fyrir ráðamenn þá sé það mjög athyglisvert segir Baldur

Ríkisstjórnin ekki fjölskipað stjórnvald

Arnþrúður benti á að ríkisstjórn sé ekki fjölskipað stjórnvald og ráðherrar hafi því þennan kost sem þeir sannarlega nýti sér eins og dæmin sanni. Baldur segir að ráðherrar hafi gert þetta í þessari stjórn í auknum mæli vegna þess ágreinings sem komið hafi upp í ýmsum málum innan ríkisstjórnarinnar. Hins vegar meðan allt sé í sátt og samlyndi reyni menn að vinna hlutina saman og ráðherrar reyni að taka ekki ákvarðanir sem gangi þvert gegn vilja samstarfsflokkanna, en það hefur einmitt verið að vera að gerast á síðustu misserum.

Sigurður Ingi forsætisráðherra?

Arnþrúður sagði að Útvarp Saga hefði heimildir fyrir því að það væri áætlunin að Katrín fari fljótlega í forsetaframboð og fari úr ríkisstjórn og Sigurður Ingi innviðaráðherra taki við forsætisráðuneytinu ef allt gengur eftir. Það skiptir máli hver stjórnar segir Baldur og það sé svo að menn þurfi að ná saman um fjárlög og þá málaflokka sem deilt hafi verið um eins og sjávarútvegsmálin, heilbrigðismálinn og útlendingamálin. Það væri mjög sérstakt og óvanalegt ef forsætisráðherra færi í forsetaframboð því Vinstri grænir yrðu einfaldlega miklu veikari í ríkisstjórn án Katrínar Jakobsdóttur. Hún haldi í raun lífinu í ríkisstjórninni og mjög fær í því að halda stjórninni saman.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila