Forstjóri Landsnets: Margar og tímabærar breytingar framundan í orkumálum

Rætt var um orkumál, flutningskerfið, orkuöryggi, orkuviðskipti og framtíðina á fjölmennum vorfundi Landsnets í Hörpu í gærmorgun.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets fór yfir stöðuna i orkumálum, ræddi einnig um flutningskerfið og þær umbreytingar sem eru framundan.  Hann velti fyrir sér hvernig við sem þjóð getum hámarkað virði raforku á sem hagkvæmastan hátt fyrir samfélagið og hvað þyrfti að gera til að ná markmiðum orkuskiptanna.

Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar ræddi um raforkuöryggi og mikilvægi sveigjanleika í markaðsviðskiptum. Hún sagði að það væri mikilvægt að leysa langvarandi flutningstakmarkanir og styrkja veikasta hlekkinn i flutningskerfinu. Svandís fór einnig yfir það að spár sýndu að framundan væri orkuskortur og hvað þyrfti að gerast til að bregðast við stöðunni.

Nils Gústavsson framkvæmdastjóri reksturs og eigna ræddi um orkuöryggið og flutningskerfið. Hann lagði áherslu á að við sem samfélag þyrftum að leggjast á eitt til að ljúka við að reisa nýja kynslóð byggðalínunnar. Það væri forsenda orkuskiptanna og orkuöryggis, auk þess sem það gæfi aukinn orkusveigjanleika í nærsamfélögum. Lykilatriðið væri að  uppfærslan skilar okkur betri nýtingu á orkuauðlindunum og orkuöryggi. 

Katrín Olga Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Elma sagði að skipulögð, gagnsæ viðskipti væru nauðsynleg fyrir orkuöryggi, orkunýtni og jafnræði aðila í orkuviðskiptum. Hún benti á að núverandi rammaáætlun dugar ekki fyrir eftirspurn vegna orkuskipta og þá þyrftum við að huga að nýsköpun og nýjum orkugjöfum, eins og vindi. Gagnsæi og viðskiptakerfi, sem tekur á sveiflukenndri framleiðslu, er forsenda fyrir því að hægt sé að nýta vindorku. 

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði fundinn og talaði um mikilvægi framkvæmda í flutningskerfinu og setti það í samhengi við vegakerfið. Ræddi hann einnig um mikilvægi þess að einfalda regluverkið án þess að gefa afslátt af kröfum til að komast í orkuskiptin. Sagði frá vinnunni sem er í gangi í ráðuneytinu og horfði til framtíðar í orkumálum. Hvatti hann áheyrendur til að hjálpast að í að gera þetta saman, því engin muni sjá eftir því eftir á að fara í þessar breytingar.  

Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður Landsnets stýrði fundinum. Hún sagði m.a. að nú hefði Landsnet lokið fyrsta ári sínu sem fyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar og benti fundargestum á árs- og sjálfbærniskýrslu Landsnets sem nú er ný komin út. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila