Framsóknarmenn rólegir yfir lögbrotum Svandísar – Gerum ekki kröfu um að hún víki

Framsóknarmenn virðast fremur rólegir yfir áliti Umboðsmanns Alþingis um lögbrot Svandísar Svavarsdóttir og eru þar á bæ engar áætlanir um að funda um einhverja niðurstöðu gagnvart ráðherranum og ákvörðunum hennar né krafa um að hún víki úr embætti. Þetta kom fram í máli Höllu Signýjar Kristjánsdóttur þingmanns Framsóknarflokksins í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Halla segir að málið hafi verið rætt á fundi um helgina ásamt öðrum málum en þar hafi einungis verið farið yfir málið fremur en að komast að einhverri niðurstöðu í því. Þá segir hún að það séu engar áætlanir uppi um að funda um einhverja sérstaka niðurstöðu í málinu. Hún segir að á sínum tíma hafi þingmenn flokksins varað við að fara þá leið að banna hvalveiðarnar með þeim hætti sem var gert og því hafi niðurstaða Umboðamanns Alþingis í raun ekki komið á óvart.

Afleiðingar af görðum Svandísar eiga eftir að koma í ljós

Hún segir hvað varðar afleiðingar í kjölfar álits Umboðsmanns, þá hafi málið nú þegar haft afleiðingar og það hafi í raun gerst strax í sumar en nú eigi fleiri afleiðingar eftir að koma fram í dagsljósið eins og bótakrafa af hálfu Hvals hf.

Ekki kröfur um að Svandís víki úr embætti þrátt fyrir að brjóta gegn atvinnufrelsi manna

Aðspurð um hvort henni finnist lögbrot Svandísar í lagi, til að mynda að brjóta gegn atvinnufrelsi manna og baka þjóðinni fjártjón segir Halla að það finnist þeim ekki í lagi. Hún segir jafnframt að túlka megi niðurstöðu Umboðmanns á nokkra vegu. Umboðsmaður segi að ákvörðunin eigi sér ekki nægilega stoð í lögum og að mati Höllu Signýjar gefi það orðalag til kynna að niðurstaðan sé ekki afgerandi. Boltinn sé fyrst og fremst hjá Svandísi sjálfri sem þurfi að ræða við sitt fólk um niðurstöðuna. Framsókn geri enga kröfu um að Svandís víki úr embætti og engar tillögur um slíkt séu hjá þingflokknum.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

1-Hluti

2-Hluti

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila