Fréttir vikunnar: Eurovision, forsetakosningar og valdaframsal

Í þættinum fréttir vikunnar í dag var Brynjar Níelsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins gestur Arnþrúðar og fóru þau yfir þau helstu mál sem komu upp í vikunni.

Í byrjun þáttar fékk Brynjar reyndar að spreyta sig á þekkingu sinni á Eurovision í tilefni þess að Brynjar hefur einmitt verið í fréttum þessa vikunna vegna þeirrar hugmyndar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins að Brynjar tæki að sér að lýsa keppninni frá Malmö í vor. Arnþrúður spilaði nokkur Eurovision lög í þættinum og fékk Brynjar nokkrar spurningar um lögin og skemmst er frá því að segja að Brynjar stóðst Eurovisíon prófið með miklum ágætum. Hann segist þó ekki vera mikið fyrir Eurovision en myndi samt örugglega mæta í Eurovisionpartí yrði honum boðið.

Mikið í húfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Af öðrum fréttum vikunnar var farið yfir breytingarnar á ríkisstjórninni. Brynjar sagði að fyrst það hefði verið ákveðið að halda samstarfi flokkanna áfram væri eins gott að Sjálfstæðisflokkurinn héldi vel á spöðunum hvað varðar áherslumál sín því annars gæti þetta endað illa og flokkurinn átt mjög erfitt uppdráttar í næstu kosningum.

Mikilvægast að virða stjórnarskrána

Þá var rætt um forsetakosningarnar og málsskotsrétt forseta og segir Brynjar að þegar kemur að málsskotsréttinum eigi alls ekki að beita honum nema eitthvað alveg sérstakt komi upp sem varði mikla hagsmuni þjóðarinnar. Gott dæmi er þegar Ólafur Ragnar beitti ákvæði 26.gr. stjskr. vegna Icesave og ef sú staða kæmi upp að Ísland ætlaði að ganga í bandlag eins og ESB þar sem verið væri að framselja mikil völd úr landi. En Brynjar lagði mikla áherslu á að menn virtu einfaldlega stjórnarskrána þegar komi að slíkum málum enda sé hún í fullu gildi.

Hlusta má á þessar og fleiri fréttir í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila