Fréttir vikunnar: Forsetakosningar og framboð Katrínar

Í þættinum fréttir vikunnar í dag voru stóru fréttir þessa dags um framboð Katrínar Jakobsdóttur til embættis forseta Íslands eðlilega fyrirferðamiklar enda í fyrsta sinn í sögunni sem sitjandi forsætisráðherra gefur kost á sér. Í þættinum fóru Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson yfir málin og ræddu forsetakosningarnar út frá mörgum hliðum.

Arnþrúður benti á í þættinum að forsetakosningarnar nú séu þær mikilvægustu frá stofnun lýðveldisins því þær snúist í raun og veru um hvort Ísland ætli að halda áfram fullveldi sínu og sjálfstæði. Með framboði Katrínar sé komin fram frambjóðandi sem sé beinlínis á mála hjá World Economic Forum sem stefni að einni heimsstjórn. Þá eru tengsl Katrínar við WHO einnig þekkt. Katrín hafi meðal annars unnið að stefnu WEF á meðan hún hefur verið í embætti forsætisráðherra og lét það frá sér fara í viðtali á RÚV 2018 að hún ætlaði meðal annars að breyta menningunni hér á landi og það hefur hún svo sannarlega verið að gera.

Útvarp Saga vissi um þessa áætlun í byrjun janúar s.l.

Í þættinum kom fram að ákvörðun Katrínar hafi ekki komið á óvart og segir Arnþrúður að hún hafi fengið vitneskju um hvað stæði til strax eftir áramótin. Þá hefði planið verið að Sigurður Ingi tæki svo við ráðherrastóli Katrínar en það sé enn þó ekki ljóst hvort það gangi eftir.

Frambjóðendur verða að fá að kynna sig hjá RUV

Arnþrúður lagði á það áherslu að Ríkisútvarpið gæfi nú öllum frambjóðendum jafnan kost á að kynna sig í stað þess að hygla einum frambjóðanda umfram annan. Það mætti til dæmis gera með því að taka upp þætti á dagvinnutíma og sýna svo eftir fréttir og því ætti það ekki að kosta mikla fjármuni. Það skipti nefnilega miklu máli að frambjóðendur fái að kynna sig og hvað þeir standa fyrir svo landsmenn geti glöggvað sig betur á því fólki sem gefur kost á sér.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila