Fréttir vikunnar: Leyndarhyggja kerfisins hefur margar birtingamyndir

Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri og Pétur Gunnlaugsson fóru yfir helstu málin sem verið hafa í fréttum undanfarið.  Þau ræddu um þá leyndarhyggju kerfisins sem virðist ekki gerlegt að breyta.  Gleggsta dæmið sé salan á íbúðum Íbúðalánasjóðs, salan á eignum föllnu bankana í gegnum félagið Lindarhvoll og loks salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka.  Þá hvíli líka mikil leynd og þöggun varðandi kostnað ýmissa málaflokka svo sem hvað varðar loftlagsmál, málefni innflytjenda og kaupin á bóluefnunum.  Þeir sem bera ábyrgð á ámælisverðri hegðun láti sig gjarnan hverfa úr stjórnmálunum eða setjast að erlendis í þeirri von að gleymast.

Stjórnkerfið hrokafullt gagnvart almenningi

Pétur benti á að með því að halda upplýsingum sem þessum leyndum fyrir almenningi þá verði erfiðara að halda uppi málefnalegri umræðu um málin sem þyrfti svo sannarlega að ræða. Því sé gjarnan stillt þannig upp að ef menn vilji upplýsingar þá séu þeir á móti því sem upplýsingarnar snúa að. Um sé að ræða ákveðinn hroka af hálfu stjórnkerfisins í garð almennings. Staða Íslands sé þannig að hér sé fulltrúalýðræði þar sem margir fulltrúarnir og ríkisstjórnin haga sér á mjög hrokafullan hátt gagnvart kjósendum og telja sig ekki þurfa að standa skil gjörða sinna.

Arnþrúður segir almenning vanmáttugan gagnvart þessum hroka og það séu alls engar breytingar í sjónmálið hvað þetta varðar og þessi staða sé algjörlega óásættanleg. Segir Arnþrúður að hún velti því fyrir sér hvað það sé í þessum skýrslum sem sé svo alvarlegt að þjóðin megi ekki fá vitneskju um það. Það veldur þeirri hugsun hvort verið sé að fela eitthvað sem sé beinlínis glæpsamlegt athæfi og varði við hegningarlög.

Pétur áréttar að það sé einungis verið að biðja um að skýrslurnar verði birtar en ekki verið að biðja um riftun samninga við þá aðila sem komu þarna að málum og gátu fénýtt sér ástandið. Það sé heldur ekki verið að biðja um að stinga fólki í fangelsi sem kom að Lindarhvolsmálinu eða Íbúðalánasjóði. Í ljósi þess sé afar undarlegt að menn berjist gegn því að skýrslurnar séu birtar.

Eygló Harðardóttir birtist skyndilega sem partur af góða fólkinu

Arnþrúður segir að það vilji oft verða þannig að ryki sé slegið í augu almennings með því að afvegleiða umræðuna og skipta um umræðuefni þegar upp komi mál sem þoli ekki dagsins ljós. Birtingamynd spillingar geti verið svo margvísleg.  Hún tók dæmi um Eygló Harðardóttur sem var húsnæðismálaráðherra á þeim tíma og bar ábyrgð á sölunni þegar 4300 íbúðir Íbúðalánasjóðs voru seldar á kjörum sem ekki fást uppgefin.  Eftir nauðungarsölurnar frægu, eftir bankahrunið, hafi íbúðir Íbúðalánasjóðs verið seldar í fyrsta lagi til leigufélaga um 2300 íbúðir og svo 2000 íbúðir til hennar vina og kunningja og hóps í kringum hana eftir því sem upplýsingar dagsins í dag herma. 

Á meðan ekki eru birt nöfn þeirra sem fengu að kaupa eignirnar á vildarkjörum verður ekki annað ályktað en það sé verið að fela viðkvæman sannleika málsins. Eygló hafi ekki verið látin bera ábyrgð á þessu heldur lét hún sig hverfa úr pólitík.  Þetta hafi sést hjá öðrum ráðherrum sem hafa farið illa að ráði sínu til dæmis Árni Mathiesen sem var fjármálaráðherra í bankahruninu og Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra sem lét selja íbúðir fólks í þúsunda tali á nauðungarsölum í kjölfar hrunsins.  Eygló lét sig hverfa úr stjórnmálum en birtist svo í fréttum í gær og er þá mætt sem fulltrúi Barnamálaráðuneytisins eða ríkislögreglustjóra sem er óljóst og þar er hún að tala gegn ofbeldi. Það sé ekki mikill trúverðugleiki í slíku hlutverki eftir allt pukrið og leyndina við braskið hjá Íbúðalánasjóði. Svona skiptir fólk um ham ábyrgðarlaust og er þetta glöggt dæmi um tviskinnung og hvernig almenningur í landinu er afvegaleiddur. 

Ærandi þögn Sigríðar ríkislögreglustjóra um vopnasölu föður hennar

Þá sé Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri enn eitt dæmið en eins og kunnugt er hefur faðir hennar meðal annars selt ólögleg skotvopn á netinu og var um daginn yfirheyrður vegna tengsla sinna við hryðjuverkamálið svokallaða og er með réttarstöðu sakbornings í málinu.  Við húsleit heima hjá honum fundust meðal annars 40 óskráð vopn. Bendir Arnþrúður á að viðbrögð Sigríðar hafi verið þau að skipta um umræðuefni til þess að þurfa ekki að svara fyrir málið

„nú er Stundin að birta það að Sigríður hafi nýverið beðið tvær stúlkur afsökunar sem höfðu kært kynferðisofbeldi af hálfu lögreglumanns frá árinu 2011 sem aldrei þurfti að bera ábyrgð í málinu en hún segir málið hafa gerst á vakt forvera hennar í starfi“

Pétur bendir á að lögreglumaðurinn sem um ræðir sé ennþá við störf og þannig sé hann undir stjórn Sigríðar sem virðist hafa komið fram með þessa afsökunarbeiðni í þeim tilgangi að fegra ímynd sína og draga athygli frá þeim málum sem varða vopnasölu föður hennar. Þá segir Pétur að þetta merki ákveðna stefnubreytingu hjá Sigríði sem sýndi meintum fórnarlömbum tengdaföður hennar Ólafs Skúlasonar fyrrum biskups enga samúð, í viðtali sem tekið var við Sigríði í Nýju lífi á sínum tíma.

Arnþrúður segir að þetta sé gott dæmi um hvernig reynt sé að afvegleiða umræðuna og hvernig fólk þurfi að hugsa vel út í það sem það les og heyrir í fjölmiðlum. Margt af því geti birst eins og sjónhverfingar. 

Þá hafi Sigríður mætt á fund blaðamanna í morgun þar sem rætt var um verklag lögreglu varðandi hælisleitendur en hún hafi ekki viljað ræða mál föður síns. Rétt er að taka fram að Sigríði hefur verið boðið að koma í viðtal á Útvarp Sögu að ræða vopnasölu föður síns en því svaraði Sigríður á þann hátt að hún ætli ekki að ræða þau mál við fjölmiðla að neinu leyti.

Pétur segir ríkislögreglustjóra verða að koma fram og ræða þessi mál, að minnsta kosti til þess að varpa ljósi á hvað hafi átt sér stað hvað varðar föður hennar og bætir Arnþrúður við að einnig eigi eftir að skýra hvort sú byssa sem notuð hafi verið við aftökuna í Rauðagerði í fyrra hafi verið frá Guðjóni föður Sigríðar og hvort lögregla hafi haft vitneskju um það áður en morðið var framið, Það sé krafa að það verði gengið fram í því máli og það upplýst. Þá veltir Arnþrúður þeirri spurningu upp hvort mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna hryðjuverkamálsins sitji í varðhaldi vegna þess að verið sé að rannsaka þátt Guðjóns í málinu og sömuleiðis þriðji aðilinn sem er með réttarstöðu sakbornings en sá mun hafa stungið af til útlanda og finnst hvergi.

Arnþrúður segir að jafnframt liggi fyrir að Sigríður hafi verið lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli á árinu 2007 í kjölfar þess að Jóhanni R. Benediktssyni hafi verið vikið frá störfum á vafasömum forsendum. Á sama tíma hafi faðir hennar og áratugi á undan verið að flytja inn vopnaíhluti ýmist frá Bandaríkjunum og Evrópu og svo sett byssurnar saman hér á landi.

„ætlar hún þá að segja okkur að allan þennan tíma hafi hún ekki haft grænan grun um þetta? ég velti því svona fyrir mér“segir Arnþrúður.

Leyndarhyggjan þjónar djúpríkinu

Það virðist lítill áhugi á meðal ráðamanna að taka á þessari leyndarhyggju sem verður meira áberandi þegar á líður og segir Pétur að svo virðist sem mönnun þyki bara fínt að hafa hlutina eins og þeir séu og njóti jafnvel góðs af því.

Arnþrúður segir að það sé ljóst að það sé ríkur vilji að hafa kerfið svona því það henti vel til þess að djúpríkið geti athafnað sig eftir sínu höfði, þannig hafi það undirtökin í þjóðfélaginu og geti látið refsa þeim sem að mati djúpríkisins þurfi að taka úr umferð með einhverjum hætti eða skaða og rakka þá niður. Þannig hafi djúpríkið alltaf tæki og tól tilbúin til þess að nota og hafa tengsl inn á suma fjölmiðla til þess að beita sér.

Evrópuráðið gæti kannað aðstæður hælisleitenda í Grikklandi

Einnig voru mál hælisleitenda rædd og sagði Pétur Íslendinga sem nú fara með formennsku í Evrópuráðinu hafa gott tækifæri til þess að kanna aðstæður hælisleitenda í Grikklandi sem haldið sé fram að séu ekki ásættanlegar, nú sé tækifæri til þess að afla upplýsinga um hver staðan sé í raun og veru.  Umræðan um þessi mál hér á landi sé eins og að íslensk yfirvöld séu að senda fólk á ruslahauga í Grikklandi, það séu alveg ótrúlegar fullyrðingar sem séu settar fram, jafnvel á Alþingi. 

Arnþrúður segir að á fundi allsherjar og menntamálanefndar hafi Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra einmitt bent á þetta atriði. Hann hafi sagt að hægt væri að senda fulltrúa til þess að kanna aðstæður. Pétur segir mannréttindanefnd Evrópuráðsins vel til þess fallna að rannsaka þessi mál og komast að hinu sanna. Dómsmálaráðherra hafi greint frá því á fundinum að samkvæmt hans upplýsingum væri búið að bæta vel úr þeim atriðum í Grikklandi sem verið væri að gagnrýna. 

Kvenleiðtogar gegn karlrembu

Í þættinum var einnig fjallað um Heimsþing kvenleiðtoga sem fram fór hér á landi þar sem Katrín Jakobsdóttir mætti og sagði talsvert eftir óklárað hvað varðar jafnrétti kynjanna, enn örlaði á svolítilli karlrembu. Arnþrúður segir vert að minna á að gríðarlegur árangur hafi náðst í þessum málaflokki enda hafi mikil barátta farið fram undanfarna áratugi, barátta sem náð hafi talsverðum árangri fyrir konur og réttindi þeirra. Aldrei hafi fleiri konur verið í ráðandi hlutverki og stöðum ekki hvað síst í stjórnmálunum. 

Þar sé ekki þar með sagt að valdamiklar konur séu óspilltar eins og dæmin sanna.  Minnir Arnþrúður á hina herskáu Ursulu Von Der Leyen framkvæmdasjtóra Evrópusambandsins sem verið sé að taka fyrir mikið siðleysi vegna þess að hún stóð fyrir því að kaupa öll bóluefnin fyrir Evrópu frá Pfizer og  hafði sjálf fjárhagslega hagsmuni af þeim gjörningi. Eiginmaður hennar sé stjórnandi í þýsku lyfjafyrirtæki sem starfi með Pfizer í framleiðslu á bóluefnunum. Segir Arnþrúður að þetta sé enn eitt dæmi um það sem skemmi fyrir konum sem standa í kvennabaráttunnni. Spillingin og leyndarhyggjan lifi góðu lífi á meðal þeirra líka. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila