Fréttir vikunnar: TM hneykslið, staða ríkisstjórnarinnar og forsetaframboðin

Í þættinum Fréttir vikunnar í dag fóru Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri og Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur og óperusöngvari yfir þær helstu fréttir sem hafa verið í umræðunni í vikunni. Helstu mál eru kaup landsbankans á TM og tómlæti bankasýslunnar. Ríkisstjórnin virðist í lausu lofti og forsetaframboðin.

Í þættinum var rætt um hin vægast sagt umdeildu kaup Landsbankans á TM tryggingarfélagi. Sagði Guðbjörn að ekki væri hægt að kenna Landsbankanum um þá stöðu sem upp er komin í málinu. Það hafi einfaldlega gerst að stjórnendur bankans tóku ákvörðun sem þeir töldu vera skynsamlega og vera til hagsbóta fyrir bankann. Arnþrúður sagði málið fyrst og fremst snúa að ótrúlegri vanrækslu og eftirlitsleysi af hálfu Bankasýslunnar. Þá sé það afar sérstakt hvað fjármálaráðherra virtist hissa á því að kaupin hafi átt sér stað því málið hafði verið í umræðunni um langa hríð.

Ríkisstjórnin í lausu lofti

Einnig var rætt um stöðu ríkisstjórnarinnar sem Guðbjörn segir algjörlega í lausu lofti og hún geti ekki einu sinni hætt á að fara í kosningar því ríkisstjórnarflokkarnir séu með svo lítið fylgi. Guðbjörn sem þekkir vel til innan Sjálfstæðisflokksins segir að hinn almenni Sjálfstæðismaður sé alls ekki kátur með stöðu flokksins nú um stundir og telji margir að það eina sem geti bjargað stöðunni sé að skipta um forustu flokksins.

Katrín Jakobsdóttir á ekki erindi á Bessastaði

Komandi forsetakosningar vor einnig til umræðu og segir Guðbjörn að þær séu komnar út í skrípaleik og staðan hafi aldrei verið verri en núna. Ljóst sé að það verði að gera breytingar á því hversu margar undirskriftir þurfi til þess að geta boðið sig fram til forseta og nefnir Guðbjörn töluna 3000 í því sambandi. Hann segir að af þeim sem gefið hafa kost á sér lítist honum best á Baldur Þórhallsson en ætli samt að bíða um sinn með að lýsa formlega stuðningi við hann. Hann hefur grun um að einhver þungaviktarframbjóðandi eigi enn eftir að stíga fram. Hann tekur Katrínu Jakobsdóttur ekki eiga erindi í þetta skiptið til þess að taka þátt í baráttunni um Bessastaði.

Hægt er að hlusta á þessar og fleiri fréttir vikunnar í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila