Fréttir vikunnar: Útlendingamálin, erlendu glæpagengin og skýrslurnar sem almenningur fær ekki að sjá

Málefni hælisleitenda voru ofarlega á baugi í þessari fréttaviku og í raun hefur málaflokkurinn verið mikið hitamál um margra mánaða skeið samfara mikilli aukningu komu hælisleitenda hingað til lands. Í þættinum Fréttir vikunnar voru Eyjólfur Ármannsson þingmaður Flokks fólksins og Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata gestir Arnþrúðar Karlsdóttur þar sem þau mál voru rædd ásamt fleiri málum sem hafa verið í fréttum.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði á fundi allsherjar og menntamálanefndar í gær að til greina kæmi að senda fulltrúa frá Íslandi til þess að kanna aðstæður hælisleitenda í Grikklandi þar sem því hefur verið haldið fram að það sé ómannúðlegt að senda hælisleitendur frá Íslandi til Grikklands. Björn Leví segir að til sé nóg af skýrslum sem vitni til aðstæður þessa hóps þar í landi. Hann segir að þó það sé kveðið á um það í Grikklandi að hælisleitendur eigi ákveðin réttindi sé það meira í orði heldur en á borði og erfitt sé fyrir hælisleitendur að nálgast þá þjónustu sem þeir eigi að fá og þeim sé lofað. Björn segir að hann sé almennt að hann sé á móti því að hælisleitendur séu sendir til Grikklands.

Íslensk stjórnvöld bera ekki ábyrgð á aðstæðum í Grikklandi

Eyjólfur sem situr í allsherjar og menntamálanefnd segir sjálfsagt að kanna aðstæður í Grikklandi og bendir á að Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem einnig á sæti í nefndinni hafi þegar farið til Grikklands og kannað aðstæður og segi aðstæður þar nægilega góðar. Hins vegar sé það svo segir Eyjólfur að íslensk stjórnvöld beri ekki ábyrgð á ástandinu í Grikklandi. Hann telur að það færi betur á því að menn veltu fyrir sér ástandinu hér á landi og hvernig við eigum að framkvæma hlutina hér. Hann segir að meta þurfi hvert mál út af fyrir sig. Hann segir að aðalatriðið varðandi þá brottvísun sem átti sér stað á dögunum snúi meira að framkvæmdinni sem slíkri, sérstaklega þegar kemur að manninum í hjólastólnum sem vísað var úr landi. Það breyti því þó ekki að þvinguð brottvísun sé hluti af ferlinu svo lengi sem fólk hefur fengið réttláta málsmeðferð. Hann bendir á að fólkið sem um ræðir hafi fengið tækifæri til þess að fara sjálfviljugt úr landi en hafi ekki gert það og því hafi þvinguð brottvísun komið til framkvæmda.

Björn bendir á að allar líkur hafi verið á að mál fólksins hefðu fengið efnismeðferð vegna nýfallins dóms, enda hefði það ekki borið ábyrgð á þeim töfum í málinu sem varð í vinnslu þess. Því hafi tímasetning brottvísuninnar verið undarleg sérstaklega í ljósi þess að stutt hafi verið í niðurstöðu dómstóla hvort mál þeirra yrðu tekin til efnislegrar meðferðar.

Ein af þeim Íslensku sérreglum sem hafa verið nokkuð umdeildar snúa meðal annars að því að þeir sem hafi verið hér á landi lengur en 12 mánuði fái efnislega meðferð sinna mála og bendir Björn á að þeirri reglu hafi verið ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds um að klára málin innan þess tímaramma, hins vegar séu ákveðin mál sem eru þannig að einstaklingar eigi ekki rétt á þeirri leið þó hún sé farin.

Gæsluvarðhald í aðdraganda brottvísunar of harkaleg aðgerð

Eyjólfur segir að tillögur um að afnema hinar íslensku sérreglur sem íþyngi ferlinu virðist komnar í strand og segist Eyjólfur ekki geta séð að stjórnarflokkarnir hafi getað komið sér saman um afnám þeirra. Hann bendir á að þeir sem hafi fengið vernd í einu landi og koma svo hingað og sækja um vernd og séu svo sendir til Grikklands séu í raun að misskilja um hvað verndin snúist. Þar sé verið að rugla saman lífskjörum á dvalarstað við vernd og menn telji að þeir fái hér betri aðbúnað og sæki því um vernd hér einnig, það hafi hins vegar ekkert með verndina sjálfa að gera. Réttara væri að einstaklingar sæki frekar um dvalarleyfi á Íslandi frekar en alþjóðlega vernd í annað sinn.

Varðandi framkvæmd brottvísana bendir Eyjólfur á að hann telji að framkvæmd brottvísana sé í sumum tilvikum of harkaleg, það eigi til dæmis við þegar þeir sem vísa á úr landi eru hnepptir í gæsluvarðhald allt að tíu dögum áður en brottvísun fer fram. Þetta segir Eyjólfur að sé algjörlega óásættanlegt og að þarna sé verið að beita miklu harðari aðgerðum en þörf sé á.

Of miklu fé eytt í málefni hælisleitenda

Hvað kostnaðinn varðar vegna hælisleitenda sem hingað koma segir Björn að verið sé að eyða allt of miklu fé í málaflokkinn á meðan hægt væri að byggja upp innviði fyrir þá fjármuni sem einnig gætu komið í góðar þarfir fyrir þá sem hingað koma. Þess í stað sé miklu fé eytt í að koma í veg fyrir að fólk komi hingað en Björn segir að hægt væri að gera þetta á þann máta að leyfa fólki að koma hingað til þess að búa og starfa þá væri það til hagsbóta fyrir samfélagið.

Betra að taka á móti færri til þess að aðlögun heppnist betur

Þá segir Eyjólfur að hafa þurfi einnig í huga að aðlögun fólks þarf að takast vel ef ekki á illa að fara og því óskynsamlegt að taka á móti of miklum fjölda fólks. Hann segir að nóg sé að horfa til Svíþjóðar til þess að sjá dæmi um hvað gerist þegar aðlögun heppnast ekki sem skyldi. Hann segir að Ísland eigi að standa við sínar alþjóðlegu skuldbindingar og láta þar við sitja og einbeita okkur að því ástandi sem hér er hverju sinni, það sé hans mat að nú þegar séum við ekki að ná að sinna þessum málum nægilega vel, sérstaklega þegar kemur að brottvísunum.

Þá var fjallað um erlenda glæpahópa sem hafa fest rætur hér á landi en þekkt er að þeir nýta oft flóttamannakerfið til þess að koma sér milli landa og jafnvel herja á flóttafólk um verndargjöld, enda séu slíkir glæpahópar að stunda fyrst og fremst fíkniefnaviðskipti og mansal. Aðspurður um hvort Ísland þoli í ljósi þess enn meiri innflutning á fólki og hvort það auki ekki á það magn fíkniefna sem hingað berst segir Björn að magn fíkniefna sem sé í umferð hér sé þegar mun meira en fólk haldi og hann telji að varla sé hægt að bæta meira við þegar allt komi til alls.

Vel hægt að taka á glæpahópum

Eyjólfur segist hafa miklar áhyggjur af glæpahópum sem notfæri sér bágindi flóttafólks, það sé ekki eingöngu vandamál hér á landi heldur um allan heim. Hann segist hafa meðal annars séð frétt um daginn þar sem fjölskyldufaðir frá Líbanon greiddi slíkum glæpahóp aleigu sína til þess að komast til Grikklands og siglt hafi verið með hann og fjölskyldu hans á lítilli gúmmítuðru þangað en á leiðinni létust fjögur börn hans og eiginkonan. Hvað varðar glæpahópana hérlendis þá þurfi að taka á þeim líkt og gert sé með smitsjúkdóma, það sé alltaf verið að berjast gegn þeim. Þegar Eyjólfur hafi verið starfandi hjá ríkislögreglustjóra í kringum 2007 – 2011 hafi áherslan verið á að koma í veg fyrir að Hells Angels og slíkir glæpahópar næðu fótfestu hér á landi og þar hafi það tekist vel. Það sé einnig hægt að gera það nú með þá glæpahópa sem hingað sækja, því þurfi að rannsaka vel umsóknir um alþjóðlega vernd sem virðast vafasamar.

Skýrslan sem breyttist í vinnugagn

Í þættinum ræddu Björn og Eyjólfur einnig um skýrslurnar sem ekki virðast mega birtast almenningi og byrjuðu þeir á að fjalla um skýrsluna um Lindarhvol.

Björn segir að við fall bankana hafi fjöldi eigna fallið til ríkisins sem síðan hafi verið ákveðið að setja inn í félag sem átti að sjá um sölu þeirra í stað þess að selja þær beint frá ríkinu. Það hafi Píratar gagnrýnt á sínum tíma á þeim forsendum að það yrði að vera sama gagnsæi í þeirri sölu eins og þegar um ríkið væri að ræða. Þess í stað hafi það verið sett í Lindarhvol þar sem ákveðinn leyndarhjúpur ríkir yfir.

Björn segir að varamaður ríkisendurskoðanda hafi verið falið að gera skýrslu um Lindarhvol og sölu eignanna því þáverandi ríkisendurskoðandi hafi verið vanhæfur vegna tengsla. Varamaður ríkisendurskoðanda hafi ekki verið búinn að klára skýrsluna þegar nýr ríkisendurskoðandi tók við. Þá hafa varamaður fyrrverandi ríkisendurskoðanda sent fjármálaráðuneytinu og þinginu sinn hluta af skýrslunni sem hafi svo fengið merkinguna vinnugagn. Björn Leví segir að síðan hafi menn hangið á því að þetta væri vinnugagn sem ekki ætti að birta. Forsætisnefnd hafi því á síðasta kjörtímaili fengið óháð lögfræðiálit þar sem niðurstaðan var sú að birta mætti skýrsluna og ekki þyrfti einu sinni að strika þar yfir nöfn hvað þá meira. Forseti Alþingis sitji hins vegar á skýrslunni og neiti að afhenda hana.

Eyjólfur segir ekkert því til fyrirstöðu að skýrslan um verði birt enda séu um þinglýst gögn að ræða, og þá sé mikilvægt að það verði upplýst hverjir keyptu íbúðir af Íbúðalánasjóði og á hvaða verði. Það sé einnig mikilvægt að almenningur fái þessar upplýsingar. Að hans mati hefði átt að bjóða fólki að lengja samninga svo það gæti áfram átt íbúðir sínar, það hafi hins vegar ekki verið gert og nú búum við í nokkurs konar leiguliðasamfélagi sem sé mjög slæmt.

Skuldastaða ÍL sjóðs verri vegna brunaútsölu á íbúðum

Björn bendir á að ef íbúðirnar hefðu ekki verið seldar á kostakjörum hefði skuldagat ÍL sjóðs ekki verið eins stórt eins og raunin sé nú og þá spili þetta einnig inn í leiðréttingarmálið þar sem fullt af fólki fékk leiðréttingu sem þurfti ekkert á henni að halda.

Þá sé nauðsynlegt að upplýsa um hverjir hafi keypt þær 2000 íbúðir sem enn hefur ekki verið upplýst um hverjir hafi keypt og á hvaða verði. Bendir Eyjólfur á að á þessum tíma hafi Íbúðalánasjóður verið að veita aðilum óeðlileg kjör sem ekki buðust annars staðar og þá þurfi líka að upplýsa af hverju þessi leið hafi verið valin. Um sé að ræða risastórt mál þar sem svo virðist að ríkið ætli ekki að standa við sínar skuldbindingar og boltinn muni því enda á almenningi. Eyjólfur segir að ef svo fari muni lánstraust ríkisins skaðast.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila