Fríverslunarsamningur við Bretland gengur formlega í gildi

Fríverslunarsamningur Íslands og Bretlands tók formlega í gildi í gær, 1. febrúar. Sem kunnugt er var hafist handa við gerð hans á árinu 2020 vegna útgöngu Bretlands úr ESB og þar með EES-samningnum.

Vegna útgöngunnar var nauðsynlegt að gera nýja samninga við Breta sem gætu tekið við af þeim réttindum og skildum sem EES-samningurinn skapaði áður um samskipti ríkjanna. Auk fríverslunarsamningsins hafa Ísland og Bretland gert fjölmarga samstarfssamninga, meðal annars á sviði mennta- og menningarmála, sjávarútvegsmála og loftferðamála.

Samningurinn var samþykktur af Alþingi í mars í fyrra, hefur verið beitt til bráðabirgða frá því í september 2022 en vegna ýmissa lagabreytinga hefur hann ekki gengið í gildi fyrr en nú.

Fríverslunarsamningurinn var gerður í samfloti með hinum EFTA-ríkjunum innan EES, Noregi og Liechtenstein. Um er að ræða yfirgripsmikinn fríverslunarsamning sem nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og þeirra reglna sem um þau gilda. Samningurinn miðar að því að tryggja eins náin viðskiptatengsl og unnt er að ná með fríverslunarsamningi.

Formlegar samningaviðræður hófust í september 2020 og lauk við undirritun samningsins í júlí 2021. Í ljósi sóttvarnarráðstafanna og ferðatakmarkana á tímabilinu hittust samningahópar Bretlands, Íslands, Liechtenstein og Noregs eingöngu á fjarfundum í gegnum allt samningsferlið.

Deila