Frumvarp um rýmri reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga í samráðsgátt

Frumvarp sem miðar að því að rýmka reglur um dvalar og atvinnuréttindi útlendinga hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið byggir á stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs þar sem kemur m.a. fram að þátttaka fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytileika, efli íslenskt samfélag og menningu og sé ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Þá er þar kveðið á um að tryggja verði að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.

Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að markmið frumvarpsins sé að

„gera Ísland að eftirsóknarverðari og samkeppnishæfari kosti fyrir erlenda starfsmenn og nema, auka fjölbreytileika íslensks samfélags og um leið byggja undir áframhaldandi lífsgæði og velsæld til framtíðar. Þá er að því stefnt með breytingunum að styrkja stöðu innflytjenda á vinnumarkaði“

Samkvæmt frumvarpinu verða gerðar sjö breytingar í þessum tilgangi en í skýringunum segir:

„í fyrsta lagi lagt til að tímabundið atvinnuleyfi verði bundið við störf í tiltekinni atvinnugrein en ekki við tiltekið starf hjá atvinnurekanda. Í öðru lagi er lagt til að tiltekin dvalarleyfi verði lengd. Í þriðja lagi er lagt til að fjölskyldusameiningar verði heimilaðar vegna fleiri dvalarleyfa. Í fjórða lagi er lagt til að undanþága verði frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi fyrir maka sérfræðinga. Í fimmta lagi er lagt til að sjálfstæðum atvinnurekendum verði gefið færi á að fá atvinnuleyfi. Í sjötta lagi er lagt til að lengri umþóttunartími verði fyrir sérfræðinga til atvinnuleitar í kjölfar atvinnumissis. Loks í sjöunda lagi eru lögð til aukin réttindi til handa erlendum háskólanemum í tengslum við atvinnuleit og framfærsluviðmið.“

Hér að neðan má sjá frumvarpið

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila