Fylgjast þarf betur með hverjir fá atvinnuleyfi á Íslandi

Vinnumansal er því miður ógeðfelld staðreynd á Íslandi og því orðið vandamál sem taka verður á föstum tökum. Það sé í raun miður að það mál sem upp kom á dögunum sé að öllum líkindum ekkert einsdæmi. Þetta segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélag Akraness og formaður starfsgreinafélagsins en hann var viðmælandi í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Vilhjálmur segist afar ánægður með að yfirvöld hafi komist á snoðir um hið stóra vinnumansalsmál. Vandinn sé sá að það sé flókið að uppræta slík mál því þeir sem lenda í mansali vilja gjarnan ekki segja frá bæði af ótta við glæpamennina sem seldu þá mansali en einnig af skömm yfir því að hafa verið gabbaður í hendurnar á mansalshópi.

Fólk heldur að það verði sent úr landi

Þá sé það því miður oft svo að fólk sem er selt mansali áttar sig ekki á réttarstöðu sinni og treystir jafnvel ekki lögreglunni. Þetta fólk hafi miklar áhyggjur af því að dvalarleyfi þeirra verði fellt úr gildi og það sent úr landi hið snarasta þó svo löggjöfin hvað þennan brotaflokk varði sé orðið það góð að hún geri ráð fyrir að grípa þá sem lenda í slíku mansali með mjög tryggum hætti. Þeir þurfi hins vegar ekki að óttast að verða sendir úr landi og þeir fá aðstoð við að finna dvalarstað og starf við hæfi.

Vilhjálmur segist vona að stóra mansalsmálið verði til þess að aðrir sem lendi í slíku stígi fram og segi sína sögu því það sé alveg skelfilegt að vita til þess að slíkt þrífist í okkar samfélagi.

Vinnustaðaeftirlit hjá verkalýðsfélögunum

Hann segir mikilvægt að ríkisvaldið sé betur vakandi yfir því hverjir komi til landsins og hverjir séu að fá hér leyfi á grundvelli þess að vera sérfræðingar. Þá séu verkalýðsfélögin með vinnustaðaeftirlit en vandinn við það eftirlit að það er mjög háð því að fólk sem rætt er við á vinnustöðunum vilji ræða við eftirlitsmenn.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila