Gasmengun vegna gossins til vesturs og norðvesturs í nótt

Gasmengun frá eldgosinu við Stóra – Skógfell berst í vestur og norðvestur næsta sólarhringinn samkvæmt gasdreifingarspá Veðurstofu Íslands. Þá er einnig óvissa um styrk gasmengunar.

Lítil breyting hefur orðið á eldgosinu frá í dag sem virðist enn með talsverðri virkni. Það liggur þó fyrir að hraunflæði frá gosinu er orðið mun umfangsminna en var fyrr í dag samkvæmt upplýsingum Veðurstofu.

Líkur á að hraunflæði nái að sjó eru taldar sem stendur afar litlar en sú spá miðast við að hraunflæði haldist áfram í sama magni og verið hefur síðustu klukkutíma. Þó eru hrauntjarnir sem gætu mögulega hlaupið fram og breytt framvindunni en ekkert bendir til að svo verði eins og staðan er nú. Hér að neðan má sjá kort af gasdreifingarspá Veðurstofunnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila