Gengið of langt í undanþágum í búvörulögum – minni aðilar þurrkast út

Þær undanþágur frá samkeppnislögum sem búið er að lögfesta í búvörulögum ganga allt of langt og gæti orðið til þess að minni matvælaframleiðendur hreinlega þurrkist út af markaði og einnig að vörverð hækki upp úr öllu valdi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Jóhanns Páls Jóhannssonar þingmanns Samfylkingarinnar í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Jóhann Páll segir að það sé mat Samfylkingarinnar að lögfesta eigi ákveðnar undanþágur sambærilegar þeim sem lögfestar hafa verið á öðrum norðurlöndum og varðar undanþágur frá samkeppnislögum sem væri þá gert í þágu sauðfjárbænda og nautgripabænda. Þær undanþágur sem voru lögfestar núna séu svo víðtækar að þær eigi nánast við um allan matvælamarkaðinn. Frumvarpið eins og það var upphaflega kynnt hafi ekki náð þeim markmiðum að þjóna hagsmunum sauðfjárbænda og stórgriparæktenda heldur helst þeirra sem framleiða svínakjöt og kjúklinga. Þannig hafi verið algert misræmi milli yfirlýstra markmiða frumvarpsins og svo frumvarpstextans.

Opinn tékki á undanþágur í matvælageiranum

Því hafi verið farið í þá vinnu að breyta frumvarpinu og þegar þær voru komnar fram hafi komið fram athugasemdir frá sérfróðum aðilum í samkeppnisrétti um misræmi þ,e að texti nefndarálitsins féll ekki að breytingartillögunni. Þannig hafði frumvarpinu verið breytt á þann hátt að í raun hafði verið gefinn út opinn tékki á undanþágur alls matvælageirans bæði hvað varðar verðsamráð og samruna.

Minni aðilar í matvælaframleiðslu geta orðið undir

Nú sé svo komið að nú geti hvaða stórfyrirtæki í matvælaiðnaði sem er haft með sér verðsamráð sem og geti farið í samrunaferli sýnist þeim svo. Þetta veldur því að minni aðilar á markaði eiga mjög erfitt með að keppa við stærri aðila og hagsmunir neytenda verða fyrir borð bornir.

Hlusta má á nánari umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila