Getur ekki endað með öðru en skelfingu ef greiðslubyrðin heldur áfram að hækka

Það getur ekki endað með öðru en skelfingu ef greiðslubyrðin heldur áfram að hækka eins og hún hefur verið að gera að undanförnu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness í síðdegisútvarpinu í dag en Vilhjálmur var viðmælandi Péturs Gunnlaugssonar.

Vilhjálmur segir launahækkanir um tíuþúsundkalla til eða frá skipta litlu þegar horft er á stóra samhengið og vextir haldi áfram að hækka. Það sé því kappsmál að mati Vilhjálms að berjast með kjafti og kló gegn hækkandi vaxtaprósentu.

Verðtryggð lán eru baneitruð

Hann segir að ástæða þess að farið hafi verið í skammtímasamninga sé einmitt sú að geta séð til hvort vaxtaspáin myndi standast.

„ég veit hins vegar hvað bankarnir munu gera, þeir munu smala fólkinu aftur yfir í verðtryggð lán þar sem vextirnir eru lægri en trúið mér að þá mun bara höfuðstóllinn hækka og við þekkjum þá sögu þegar höfuðstóll lána hækkaði um 400 milljarða nánast á einni nóttu vegna verðbólgu svo þetta eru baneitruð lán“

Hann segir að það sem þurfi fyrst og fremst að berjast fyrir sé lækkun vaxta þannig að þeir verði eins og hjá löndunum sem við berum okkur saman við, það sé grundvallaratriði.

„við græðum öll á því, það mun líka geta leitt til lægri húsaleigu vegna þess að þá verður fjármagnskostnaður þeirra sem eiga húsnæði lægri ef þeir geta endurfjármagnað sig og svo framvegis“segir Vilhjálmur.

Hann segist hafa þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem nú sé uppi á vinnumarkaði og fyrirhuguð verkbönn vera svívirðileg og telur að ástandið geti skaðað stöðu launafólks. Hann segir að hann sjálfur hefði þá skoðun að ekki væri rétt að beita verkfalli þegar menn væru að reyna að ná skammtímasamningi. Það væri öflugra og meiri trúverðugleiki falin í því að beita verkföllum þegar verið væri að reyna að knýja fram langtímasamninga og þá með alla verkalýðshreyfinguna á bak við slíkar aðgerðir en ekki aðeins eitt félag.

Hann segir gagnrýni fyrir að hafa samið um þá samninga sem nú hafa tekið gildi vera óvægna. Það sé einfaldlega þannig að fólk hafi verið ánægt með samningana enda hafi það komið á daginn að þeir hafi verið samþykktir af félagsmönnum félaga innan SGS.

Þá bendir hann á að Sólveig Anna hafi á sínum tíma komið að gerð lífskjarasamninga á sínum tíma og hafi hún harðlega gagnrýnt BHM á þeim tíma sem hafi viljað haga málum öðruvísi. Nú sé hún sjálf í sömu stöðu og BHM hafi verið á sínum tíma og því sé ákveðin hræsni falin í gagnrýninni á Vilhjálm.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila