Gleðilega páska – Páskakveðjur á Útvarpi Sögu

Útvarp Saga óskar hlustendum sem og landsmönnum gleðilegra páska. Um leið viljum við vekja athygli á að páskakveðjurnar verða fluttar á Útvarpi Sögu í dag páskadag kl.15:00 og í kvöld kl.23:00. Þá verða þær einnig fluttar á öðrum degi páska kl.11:00 og 17:00.

Í tilefni af páskahátíðinni ætlum við hér að neðan að birta fróðleik um þýðingu páskana og uppruna.

Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana Festum festorum eða hátíð hátíðanna. Tilefnið er upprisa Jesú en kristnir menn trúa því að hann hafi risið upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann var krossfestur einhvern tíma á árabilinu AD 27 til 33. Samkvæmt frásögum í Nýja testamentinu (Matt. 26.-27. kap., Mark. 14.-15. kap., Lúk. 22.-23. kap. og Jóh. 18.-19. kap.) bar handtöku og krossfestingu Jesú upp á páskahátíð gyðinga. Páskalambið varð að tákni fyrir Jesú í hugum kristinna manna því honum var fórnað á sama hátt og lambinu.

Það er með öllu óvíst hvenær kristnir menn fóru að halda upp á páska. Í frumkristni var nefnilega sunnudagurinn haldinn heilagur til áminnis um upprisu Jesú (enda hvíldardagurinn fluttur frá laugardeginum sem gyðingar höfðu og hafa enn sem hvíldardag). Samkvæmt hefðinni og guðspjöllunum dó Jesús á föstudegi og reis upp frá dauðum á sunnudegi. Að öllum líkindum héldu þeir sem snúist höfðu til kristni í fyrstu söfnuðunum og ekki voru gyðingar ekki upp á páska. Samkvæmt kirkjusagnfræðingnum Socrates Scholasticus (fæddur ár 380) hófu kirkjudeildir að halda upp á páska einungis á einstaka svæðum og nefnir meðal annars að hvorki Jesús né postularnir hafi haldið upp á páska ekki frekar enn neinar aðrar hátíðir.[1] Þegar a annarri öld er hins vegar greinilegt að páskahátíðin var orðin föst í sessi. Í lok þeirrar aldar stóðu yfir miklar deilur um tímasetningu atburða þeirra sem páskarnir eiga að minna á. Það var ekki fyrr en við kirkjuþingið í Níkeu 325 sem samþykkt var að páskarnir mundu ekki fylgja tímasetningu páskahátíðar gyðinga heldur fylgja fullu tungli næst jafndægri á vori eftir allflókinni reglu.

Lengi vel var sá siður í kaþólsku kirkjunni að fasta í 40 daga fyrir páska sem innlifun í píningu og píslarvætti Jesú og er sú fasta kölluð langafastaRétttrúnaðarkirkjan heldur enn í þennan sið. Fastan fólst í því að ekki mátti neyta kjötmetis. Dagana þrjá áður en fastan hófst, sem kallaðir voru föstuinngangur, var haldin hátíð sem nefnd var kjötkveðjuhátíð og er enn mikil hátíð í mörgum kaþólskum löndum. Fyrsti dagurinn í föstunni var nefndur öskudagur en þann dag voru trúaðir blessaðir í kirkjunni og fengu krossmark dregið á enni með ösku. Fimmti sunnudagur í föstu var boðunardagur Maríu, þegar María mey fékk boð Gabríels erkiengils um að hún væri hafandi og mundi fæða son Guðs.

Síðasta vikan fyrir páska er oftast nefnd dymbilvika eða kyrravika á íslensku en hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum gegnum aldirnar.[2] Þar á meðal má nefna dymbildagar, dymbildagavika, dymbildægur, dymbilvika, passíuvika, efsta vika, helga vika, helg dagar og píningarvika.

Dymbilvikan hefst með pálmasunnudegi en samkvæmt Mattheusarguðspjallinu reið Jesú þann dag á asna inn í Jerúsalem til að halda páska gyðinga, margir fögnuðu honum með því að veifa pálmagreinum og hylltu hann sem konung og frelsara. Á fimmtudeginum borðaði Jesús með lærisveinum sínum í síðasta sinn og er það nefnt síðasta kvöldmáltíðin. Dagurinn er nefndur skírdagur vegna þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sina fyrir máltíðina, en skír í þessu samhengi þýðir hreinn. Föstudagurinn langi snýst allur um sakfellingu Jesú, krossfestingu og dauða. Páskahátíð gyðinga Pesach, var haldin á laugardeginum á sabbatinu. Þennan dag lá öll starfsemi niðri en daginn eftir, á sunnudeginum, var venjulegur virkur dagur. Það var þá sem María Magdalena og María móðir Jakobs, samkvæmt, Markúsarguðspjallinu 16. kafla, sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni því að hann hafði risið upp frá dauðum. Kristnir menn halda þess vegna páskadaginn sem gleði og fagnaðardag. Jesús lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi á krossinum og það gerir páskana að mestu hátíð kristinna manna og forsendu kristinnar trúar.

Samkvæmt guðspjöllunum birtist Jesús mörgum og víða eftir upprisuna allt fram að uppstigningardegi 40 dögum eftir páska, þá steig hann til himna og situr þar við hægri hönd Guðs.

Heimild: Wikipedia

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila