Góð stemning á Reykjavíkurskákmótinu

Það var létt yfir fólki og góð stemning á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu sem nú er ný lokið. Mótið gekk vonum framar og hefði jafnvel geta gengið betur ef Harpa væri ekki svona lítil þar sem áhuginn er gríðarlegur. Þetta segir Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands en hann var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar í þættinum Við skákborðið.

Í þættinum fóru þeir félagar yfir það helsta sem dregið hefur til tíðinda á mótinu og sögðu jafnframt frá því hvernig mótið gengur fyrir sig. Í ár voru það 440 sem skráðu sig til leiks á mótinu en þegar upp var staðið voru það 400 keppendur sem mættu til keppni. Gunnar segir að þegar skráning á mótið fer fram sé algengt að viss fjöldi falli úr skaptinu og getur það verið af ýmsum ástæðum.

400 manns skráðir á mótinu

Hann segir að reynsla fyrri ára hafi verið nýtt til þess að fleirum var leyft að skrá sig en venja er og var það spá manna að það myndu að lokum um 400 manns keppa sem raunin svo varð. Gunnar segir að það sé einmitt sú tala sem menn vildu fá því í raun er ekki hægt að ráða við stærri en 400 manna mót.Hann segir það fyrst og fremst plássleysi um að kenna að ekki sé hægt að ráða við stærri mót en hann segist viss um að ef plássið væri til staðar myndi vera vel hægt að halda 500 manna mót því ekki vanti áhugann sem sé gríðarlegur hér á landi.

Í þættinum voru einnig flutt stutt viðtöl við ýmsa aðila sem staddir eru á mótinu en heyra má nánari umfjöllun um mótið í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila