Grindvíkingum heimilaður aðgangur að bænum

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að opna fyrir aðgang að Grindavík og er þeim sem þar búa og starfa heimilt að snúa til Grindavíkur og dvelja þar. Ekki er þó mælt með því að fólk dvelji þar næturlangt.

Í gær stóð til að landa úr skipum í Grindvíkurhöfn en það var ákvörðun viðbragðsaðila að heimila það ekki m.a. vegna mengunarhættu og óvissu með framgang hraunrennslis fyrir ofan Suðurstrandarveg.   Þá er hluti Grindavíkurvegar undir hrauni og sú flóttaleið úr sögunni í einhverja daga.

Þeir sem eiga erindi inn í Grindavík er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni:  https://loftgaedi.is/ 

Lítil sem engin hreyfing er nú á hraunrennsli bæði inn í Svartsengi og eins fyrir ofan Suðurstrandarveg.  Það er mat lögreglustjóra að ekki stafi ógn af hraunrennsli inni í Grindavík við núverandi aðstæður.  Þá er fylgst vel með hraunrennsli fyrir ofan Suðurstrandarveg sem ógnar ekki veginum eins og staðan er í dag.   Fylgst er vel með mengun inn á merktu hættusvæði.   Í dag er vindátt hagstæð og ekki ætti að gæta mengunar inn í Grindavík.  Ef og þegar hætta er talin á að loftmengun ógni heilsu manna getur komið til þess að aðgengi inn í Grindavík verði takmarkað.  

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila