Guðlaugur Þór: Einangraður raforkumarkaður hér á landi

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslags­ráðherra segir að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að skilgreining sé í nýju frumvarpi til raforkulaga um heildsölumarkað raforku sem taki til allra viðskipta orkuafurða óháð því hvar og með hvaða hætti viðkipti fari fram. Þar sé verið að meina innanlandsmarkað að sögn Guðlaugs Þórs í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu.

Guðlaugur segir að ekki þurfi að tiltaka sérstaklega í þessari skilgreiningu að átt sé við innanlandsmarkað því það sé svo augljóst í hans huga að verið sé að segja það í skilgreiningunni.

Noregur með sæstreng en ekki við Íslendingar

Hann segir að í þessu sambandi séu löndin Noregur og Ísland gjarnan borin saman en munurinn á raforkumarkaði landanna sé að Noregur sé með sæstreng og því virkur partur af orkumarkaði Evrópu en hér á Íslandi sé enginn sæstrengur og Ísland sé því eingangraður markaður og ekki hluti af markaðssvæði Evrópu. Hann segir að það breytist ekki þó að hér komi aðrir orkuöflunarmöguleikar eins og vindmyllur. Það sé grundvallarmunur á Íslenska og Norska markaðnum þar sem Ísland sé ekki tengt Evrópu í gegnum sæstreng.

Vindmyllur á Búrfellslundi og Blöndulundi

Hvað varðar vindmyllurnar þá séu tveir kostir þar sem gert sé ráð fyrir að reisa vindmyllur en það séu Búrfellslundur og Blöndulundur. Það þurfi þó að uppfylla ákveðin skilyrði áður en farið verður í að reisa vindmyllur á svæðum sem koma til álita. Skilyrðin eru þau að svæðin uppfylli markmiðin um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Þá megi ekki reisa þær á viðkvæmum svæðum eins og hálendinu og verndarsvæðum heldur fremur á svæðum sem teljist röskuð. Ekki má heldur reisa vindmyllur á svæðum þar sem ránfuglar séu því þeir horfi gjarnan niðurá við og eigi því í meiri hættu á að rekast á spaða vindmyllanna.

Guðlaugur telur vindmyllurnar mikilvægar því Ísland þurfi á öllum orkugjöfum að halda ef það á að nást að framleiða grænu orku sem þurfi að gerast hratt og það taki skemmstan tíma að setja upp vindmyllur og þá sé auðvelt að taka þær niður ef svo ber undir.

Hlusta má nánar á umræðuna um orkumálin í þættinum í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila