Guðmundur Ingi: Eldri borgarar ekki gleymdir

Eldri borgarar eru alls ekki gleymdur hópur og hafa verið gerðar talsverðar breytingar á lífeyriskerfinu undanfarin ár þeim til hagsbóta. Þó er því ekki að neyta að það er ákveðinn hópur eldra fólks sem ennþá hefur það ekki nógu gott og úr því þarf að bæta. Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags og vinnumarkaðsráðherra og formaður VG en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Guðmundur segir að búið sé að bæta til mikilla muna stöðu þeirra sem stóðu verst en sá hópur hafi samanstaðið af fólki af erlendum uppruna og Íslendingum sem hafi búið erlendis og átt mjög takmarkaðan rétt til greiðslna úr almannatryggingakerfinu. Það hafi verið lagfært með lagasetningu árið 2020.

Á eftir að lagfæra almennt frítekjumark eldra fólks

Enn eigi þó eftir að fara í lagfæringar til að mynda hvað varðar almennt frítekjumark eldra fólks því nú sé búið að lagfæra frítekjumark hvað varðar atvinnutekjur eldra fólks en að hitt sé enn eftir og það skipti mjög miklu máli fyrir eldri borgara. Hann segir að almenna frítekjumarkið miðist við 25.000 og þeirri upphæð hafi ekki verið breytt síðan árið 2017.

Hann segir að breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem verið sé að gera núna gerir einnig ráð fyrir að frítekjumörk beggja lífeyriskerfanna hækki samhliða öðrum hækkunum sem verði við hver áramót og þannig muni þessi staða sem nú sé uppi varðandi almenna frítekjumark eldri borgara breytast í raun sjálfkrafa.

Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila