Guðmundur Karl: Vill leggja áherslu á barna og æskulýðsstarf

Verði Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur í Lindakirkju kjörinn sem næsti biskup Íslands ætlar hann að leggja áherslu á barna og æskulýðsmál sem og að byggja upp innra starf kirkjunnar. Þetta kom fram í máli Guðmundar í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Guðmundur segir að allt frá því hann hóf störf innan kirkjunnar hafi það verið þessir málaflokkar sem hann hafi haft mestan áhuga á og því vilji hann efla það starf enn frekar. Hvað varðar að ná til barna og ungmenna segir Guðmundur að Þjóðkirkjan verði að vera svolítið vakandi í þeim efnum og leita leiða til þess að ná til barnanna því þó kennd sé trúarbragðafræði í skólum sé það kristnin sem ætti að leggja þyngri áherslu á og þar geti þjóðkirkjan komið sterk inn.

Umræðan um þjóðkirkjuna neikvæð í fjölmiðlum

Þá segir Guðmundur að það sé einnig mjög mikilvægt að þjóðkirkjan gefi af sér rétta mynd og því sem hún stendur fyrir. Hann segir að umræðan í fjölmiðlum um Þjóðkirkjuna hafi verið heldur neikvæð að hans mati. Fréttir sem komið hafa af Þjóðkirkjunni hafi oftar en ekki verið í kringum einhverja skandala og leiðindi eins og geta komið upp í öllum félögum. En skandalar og leiðindi er ekki það sem fólk upplifir sem sækir til Þjóðkirkjunnar og ekki sú heildarmynd sem fólk kannast við.

Þjóðkirkjan er á réttri leið

Aðspurður um hvort Þjóðkirkjan sé á réttri leið segir Guðmundur Karl að hann sé mjög bjartsýnn á framtíðina hvað það varðar. Hann segir að kirkjan sem áður stóð traustum fótum sem stofnun sé komin í betri stöðu til þess að vera þetta opna kærleikssamfélag gagnvart fólki sem kirkjan þarf að vera.

Í þættinum sagði Guðmundur einnig frá sjálfum sér og sagði hlustendum meðal annars frá því að á árum áður hafi hann verið andstæðingur kirkjunnar. Hins vegar hafi augu hans opnast og fundið guð í sínu hjarta.

Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila