Guðmundur Ólafs hagfræðingur: Orkuskortur er vegna tískubylgju VG 

Sú ótrúlega stranga náttúruvernd sem virðist vera einhvers konar tískubóla meðal ungs fólks, fræga fólksins og VG er farin að taka út yfir allt og er í rauninni orðin árás gagnvart fólkinu í landinu. Afleiðingin er meðal annars orkuskortur. Náttúruvernd hefur haft skaðleg áhrif á hagkerfið þegar ekkert er virkjað. Þetta segir Guðmundur Ólafsson hagfræðingur en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Guðmundur bendir á að raforkuskorturinn sé mjög alvarlegur og það sé mjög skrítið að stjórnmálaflokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skuli ekki vinna bráðan bug á orkuskortinum með því að fara í að virkja. Það sé algjörlega ljóst að það er VG sem stendur gegn því.

Eitt það mikilvægasta núna að nýta náttúruna

Guðmundur segir að fólk verði að átta sig á því að það sé eitt af því mikilvægasta sem Íslendingar þurfi að gera sé einmitt að nýta náttúruna, fiskinn í sjónum til neyslu og sölu, nýta fallvötnin til orkuvinnslu og taka svo á móti ferðamönnum. Þetta sé allt gjaldeyrisskapandi starfsemi og það sé algjort lífsspursmál fyrir Ísland að hún sé í fullum gangi.

Raforkuframleiðsla gjaldeyrisskapandi

Hann segir að það sé mjög oft sem menn átti sig ekki á að raforkuframleiðsla sé gjaldeyrisskapandi og til séu hópar manna sem séu algjörlega á móti því að selja þeim rafmagn sem séu að grafa eftir Bitcoin. Þessi hópur virðist ekki skilja að það skipti í raun engu máli hvaðan gjaldeyririnn kemur, það sé til dæmis ekkert síðra að fá gjaldeyri fyrir að selja fólki sem grefur eftir bitcoin rafmagn heldur en frá þeim sem framleiði ál.

Mikilvægt að selja rafmagn vegna Bitcoin

Það að ætla að banna sölu rafmagns til þeirra sem grafa eftir Bitcoin sé eins vitlaust og að ætla stöðva sölu á fiski til framleiðslu á húðvörum. Guðmundur segir að til sé fullt af fólki sem sé haldið svona skrítum hugmyndum um boð og bönn en það geti skaðað gjaldeyrisöflunina.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila