Guðni Már: Sálgæslan mjög stór hluti af starfi presta

Sálgæsla er mjög stór hluti af starfi presta og þörfin fyrir hana er alltaf að aukast og fólk sem leitar til presta í þeim tilgangi að fjölgar stöðugt. Þetta segir séra Guðni Már Harðarson prestur í Lidakirkju en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Jafnframt því að vera mjög stór hluti af starfi presta og djákna segir Guðni sálgæsluna ekki síður einn mikilvægasta hluta starfsins því oft á tíðum eru prestar kallaðir til af lögreglu þegar alvarleg atvik hafa átt sér stað og líf fólks hefur jafnvel kollvarpast og það situr eftir í sárum. Hann segir að fjöldi þeirra sem leita til kirkjunnar til að þiggja sálgæslu séu mun fleiri en margir geri sér grein fyrir. Hann segir að fólki finnist kirkjan vera mikilvæg og það hafi endurspeglast í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 þegar fólk var innt eftir því hvort það vildi aðskilja ríki og kirkju, í ljós kom að meirihluti vildi ekki aðskilja ríki og kirkju og var sú niðurstaða þvert á allar skoðanakannanir.

Kirkja er með fólki í gleði og sorg

Hann segir fólk almennt ánægt í kirkjunni og þó það blossi upp reiði gagnvart biskupi eða eitthvað slíkt sé fólk almennt ánægt með starf kirkjunnar í sinni sókn, þannig þegar á reynir er kirkjan með fólki í gleði og sorg. Hann segir að prestar geti líka virkað sem bilanagreinar því í samtölum við fólk komi kannski eitthvað fram sem þeir bendi fólki á að það geti unnið með og komið til betri vegar í samvinnu með sínum presti.

Verðbólga og hátt verðlag veldur fólki áhyggjum

Hann segir sálgæslu í raun ekki vera nein töfrabrögð heldur skipti það máli að hlusta á fólk og að það finni að viðkomandi prestur sé með hjartað á réttum stað. Hann segir að það sem hann finni mikið fyrir þessa dagana er þörf fólks fyrir mataraðstoð. Verðbólgan og verðlag gerir fólk áhyggjufullt og margir eigi erfitt og þá sé gott að geta leitað til kirkjunnar. Guðni segir að í kjallara Grensáskirkju sé búið að koma upp aðstöðu þar sem fólk sem á þarf að halda geti komið og fengið fatnað eða leikföng fyrir börnin.

Geta ekki leyft börnum að fara í sumarbúðir

Guðni Már segir að hann hafi áhyggjur af því að hér sé að verða dýpri stéttarskipting en áður. Guðni segir að sem dæmi þá aðstoði hann við starf sumarbúðanna í Vatnaskógi sem rekið sé af KFUM og KFUK og þar megi sjá að þar vanti börn úr heilu hverfunum af því foreldrarnir hafi hreinlega ekki efni á að senda börn sín í sumarbúðirnar.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila