Guðrún Bergmann: Lýðræðið á Íslandi er að hverfa

Lýðræðið á Íslandi er að hverfa og erlend hagsmunaöfl stýra því sem þau vilja stýra hér á landi, nánast án mótstöðu íslenskra stjórnmálamanna. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðrúnar Bergmann rithöfundar og lífstílsráðgjafa í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Guðrún segir að nýjasta dæmið um það sé koma fulltrúa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem komið hafi á framfæri skoðunum sínum til íslenskra stjórnvalda og seðlabankastjóra um áframhaldandi aðgerðir í efnahagsmálum, sem eigi að vera á sömu nótum og verið hefur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé í raun hinn nýi landstjóri á fjármálasviðinu. Endalaust sé verið að hlaða upp skuldum ríkissjóðs og almenningur fær ekki að sjá hina raunverulegu skuldastöðu. Þetta sé búið að eiga sér stað allt frá því að skrifað var undir lántöku vegna Icesave í bankahruninu fræga.

Ætlunarverkið að ná tökum yfir Íslandi

Síðan þá hefur endalaust verið bætt í og nú hafi meðal annars verið tekið lán, bæði vegna Covid fjárútláta og til þess að taka á móti öllum þeim fjölda flóttamanna sem hingað koma, því engin innistæða var fyrir hendi til að mæta þeim kostnaði.

„Það er nú einu sinni þannig að þegar tekin eru lán, þá vill lánardrottininn fá veð í einhverju og ég myndi áætla að nú sé hann með ansi feitt veð í Íslandi viðskiptalega séð, og ég geri ráð fyrir að þar undir séu meðal annars auðlindirnar okkar,“ segir Guðrún.

Hún segir að þetta sé gert fyrst og fremst í þeim tilgangi að ná tökum hér á landi og hafa þar með völd og yfirráð yfir landinu og auðlindum þess. Þetta séu aðilar eins og World Economic Forum, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri slík alþjóðleg öfl. Allt tengist þetta meira og minna stefnunni um Endurræsinguna miklu og eftirfylgni við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stefnu fleiri stýriafla.

„Þegar við skuldum orðið svona mikið verðum við bara að horfast í augu við það að við stjórnum ekki landinu lengur og ég velti fyrir mér hvaða auðlindir hafa verið settar að veði eða hvort allt hafi verið sett að veði. Talandi um að við búum við lýðræðisfyrirkomulag þá er það í raun löngu horfið í reynd. Framhliðin segir að það sé lýðræði en nánast allt sem gerist á alþingi kemur sem tilskipun, viðauki eða reglugerð frá Evrópusambandinu eða EES þannig að við erum bara að fylgja stefnu sem ákveðin er í öðru landi.“

Mikil sýndarmennska í gangi

Guðrún segir að mikil sýndarmennska sé í gangi hér á landi og flest allt sem stjórnmálin gangi út á sé að sýnast, meðal annars með því að taka þátt í einhverju sem við þurfum ekki að taka þátt í, til þess eingöngu að sýnast stærri eða meiri á erlendum vettvangi en við í raun erum.

„Ef við skoðum þetta út frá fólksfjölda, þá erum við bara eins og smábær í Evrópu og höldum samt að við getum endalaust mokað út úr einhverjum sjóðum sem fylltir hafa verið með lánspeningum, bara til þess að vera með og sýnast.“

Margir stjórnmálamenn hér á landi hafa verið í skóla fyrir unga stjórnmálamenn hjá World Economic Forum og færa svo þá stefnu sem þar er boðuð heim til Íslands eins og sjá má með pólitískri rétthugsun. Þá hafi hér á landi orðið ákveðin þróun í þá átt að stórfyrirtæki og fjárfestingasjóðir sölsi undir sig eignir eins og t.d. leigufélög og erlendir aðilar eins og Jim Ratcliffe, sem keypt hefur upp fjölda bújarða á norðaustur- og austurlandi. Ratcliff á orðið það margar jarðir á þessu svæði að hann hefur orðið yfirráð yfir sex vatnsmiklum laxveiðiám.

„Þegar hann er kominn með svona mikil yfirráð yfir svona miklu ferskvatni hefur hann náð undir sig stórum hluta af einni af helstu auðlindum landsins, sem er ferskt og hreint vatn, vegna þess að það sem kemur alltaf til með að skorta mest í heiminum er gott vatn.“

Hlusta má á ítarlegt viðtal við Guðrúnu Bergmann í þættinum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila