Hætta á miklum kjarnorkuhörmungum í Zaporizhzhia

Í morgun urðu miklar vendingar í stríði Rússa og Úkraínumanna þegar stífla uppistöðulónsins í Dnípró-fljóti í Kherson-héraði var sprengd, skemmdir á stíflunni ógnar að minnsta kosti 20 borgum og bæjum auk þess sem vatn úr lóninu er undistaða kælingar kjarnorkuversins í Zaporizhzhia, stærsta kjarnorkuveri Evrópu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hauks Haukssonar fréttamanns í Moskvu í þættinum Heimsmálin í dag en hann var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur.

Haukur segir að Rússar og Úkraínumenn kenni hverjir öðrum um að hafa sprengt stífluna og segir Haukur að burtséð frá því hverjum sé um að kenna þá hafi gríðarlegir kraftar móður náttúru verið leystir úr læðingi með því að sprengja stífluna. Þessir kraftar ógni nú tugum borga sem þegar eru byrjaðar að verða umflotnar vatni og þá ógnar þessi staða kjarnorkuverinu í Zaporizhzhia sem reiðir sig á kælivatn úr lóninu sem fyrr segir.

Haukur segir stífluna sem um ræði á við þær stærstu sem starfræktar hafa verið hér á landi upp á hálendinu og því geti menn rétt ímyndað sér hvaða ástand geti skapast. Þjóðaröryggisráð Úkraínu hefur verið kallað saman vegna málsins og þá hafa fréttir borist af því að fulltrúi frá Vatíkaninu sé á leiðinni til Úkraínu, íbúar borga og bæja sem eru í hættu eru þessa stundina að flýja heimili sín. Stíflan er á því svæði sem Rússar eru með á sínu valdi í Kherson og þá hafa Rússar einnig verið með kjarorkuverið undir sínum yfirráðum að undanförnu.

Kjarnaofnarnir gætu bráðnað

Aðspurður um hvaða afleiðingar vatnsskortur geti haft á kjarnorkuverið segir Haukur að ef vatn skortir til kælingar muni myndast gríðarlegur hiti í kjarnaofnum versins eða sem samsvarar mörg þúsund gráðum sem geti valdið að ofnarnir hreinlega bráðni. Hann segir að vonir standi til þess að Rússar sem eins og fyrr segir ráða yfir kjarnorkuverinu nái að keyra niður kjarnakljúfa og kjarnaofnanna og slökkvi á þeim.

„ef vatnið tæmist og það er vafalaust aðeins tímaspursmál hvenær það gerist þá getur það endað með miklum hörmungum, það er mjög ábyrgðarlaust að vera að skjóta og sprengja á þessu svæði“segir Haukur.

Haukur segir að hætta sé á að menn séu að sjá fram á atburði eins og í Chernobyl sem hafi þó verið annars eðlis þar sem það var ekki af mannavöldum það slys.

„það getur margt gerst í þessari stöðu því eins og ég sagði þá er þetta stærsta kjarnorkuver Evrópu og miklu stærra en Chernobyl var og við sjáum að sú borg er núna eyðiborg, þetta getur því endað með algerri skelfinu og hrikalegum afleiðingum“segir Haukur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila