Það er mjög nauðsynlegt að hafa stjórn á útlendingamálunum alveg eins og hafa þarf stjórn á öðrum málum í samfélaginu. Það er það sem Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar hefur lagt áherslu á í sínum málflutningi í umræðum um þau mál. En fullmótuð stefna flokksins verður kynnt á landsfundi flokksins í haust. Þetta segir Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður Samfylkingarinnar en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.
Guðmundur Árni segir að það sé alveg eðlilegt að það séu misjafnar skoðanir á áherslum í málaflokknum innan Samfylkingarinnar enda sé flokkurinn orðinn nokkuð stór og alveg ljóst að þar séu ekkert allir á sömu skoðun. Hann segir að í ljósi þess að nú hafi hægt svolítið á þeim fjölda sem leitar hingað til lands í von um hæli þá verði líklega ekki eins mikill þrýstingur í málinu þegar kemur að því að móta stefnuna.
Útlendingafrumvarpið er til bóta
Hann segir að Samfylkingarmenn séu ánægðir með mörg atriði í nýja útlendingafrumvarpinu en þá séu menn ekki alveg sáttir við önnur atriði eins og gengur og gerist en heilt yfir sé frumvarpið til bóta. Samfylkingarmenn séu nokkuð ánægðir með þá stefnu um fjölskyldusameiningu Palestínumanna sem hingað koma og segir Guðmundur Árni að honum finnist hún hafa tekist býsna vel enda byggi hún á mannúð og réttlæti.
Samfylkingin að móta stefnu í virkjanamálum
Þá séu einnig önnur mál sem Samfylkingin sé að vinna í að móta stefnu um, til að mynda virkjanamálin en Samfylking vilji koma verkefnum af stað í þeim málaflokki og þá séu Samfylkingarmenn nú á bólakafi að vinna að framtíðarstefnu í húsnæðismálum.
Hlusta má á ítarlegri umræðu um stefnumál Samfylkingarinnar í spilaranum hér að neðan