Halla Hrund: Skortur á eldsneytisbirgðum geta lamað landið

Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Höllu Hrund Logadóttur þingmann Framsóknarflokksins og fyrrverandi orkumálastjóra í Síðdegisútvarpinu um stöðu eldsneytis- og orkuöryggis á Íslandi. Fram kom að Ísland hafi hvorki lögbundnar varabirgðir eldsneytis né samræmdar neyðaráætlanir þrátt fyrir tilmæli Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar. Þetta gerir landið berskjaldað fyrir truflunum í innflutningi á eldsneyti og neyðarástandi. Slíkt ástandi gæti lamað allt flug, skip og samgöngur. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Engin lög um varabirgðir eldsneytis

Flest Evrópuríki krefjast þess að til staðar séu lágmarksbirgðir sem duga í 90 daga. Á Íslandi hefur slík skylda ekki verið innleidd og frumvarp sem ætlað var að tryggja varabirgðir komst aldrei til framkvæmda. Halla Hrund segir það alvarlegan veikleika fyrir þjóðaröryggi, sérstaklega í ljósi breytts öryggisástands í Evrópu og aukinnar hættu á truflunum í aðfangakeðjum.

Birgðir aðeins til daglegrar notkunar- Tekur sex vikur að fá viðbótarbirgðir

Halla benti á að samkvæmt gögnum Orkustofnunar eru birgðir eldsneytis á Íslandi aðeins rétt nægar til daglegrar notkunar. Ef upp kæmi ástand sem truflaði flutninga gæti tekið allt að sex vikur að fá viðbótarbirgðir til landsins. Þetta gæti lamað flug, sjóflutninga, fiskiskipaflotann og samgöngur á landi ef til lengri röskunar kæmi.

Raforku- og hitaveituöryggi einnig í hættu

Í þættinum kom fram að ekki væri nóg að horfa einungis á eldsneyti heldur þyrfti að tryggja orkuöryggi í heild. Halla Hrund rifjaði upp dæmi frá Reykjanesi þar sem sprungur mynduðust í lagnakerfum jarðhitans eftir eldgos og hætta var á að afhending á heitu vatni myndi rofna til um 5.000 íbúa. Þá hefði þurft að grípa til dísilrafstöðva til að tryggja hitaveitu og rafmagn þar til jarðhitaleiðslur yrðu lagfærðar. Slíkt sýndi hversu viðkvæmir grunninnviðir gætu verið gagnvart náttúruvá.

Þörf á skýrum neyðaráætlunum fyrir eldsneyti, raforku og hitaveitu

Halla Hrund sagði mikilvægt að gerðar yrðu framkvæmanlegar neyðaráætlanir fyrir eldsneyti, raforku og hitaveitu til að tryggja að samfélagið gæti starfað eðlilega við áföll, hvort sem þau stafaði af eldgosi, truflunum í sjóflutningum eða átökum á alþjóðamörkuðum.

Orkuskipti þarf að setja til hliðar á neyðartímum

Í þættinum kom fram að stjórnvöld hefðu sett meiri kraft í fundahöld og yfirlýsingar um öryggismál en í raunhæfar aðgerðir sem tryggja grunninnviði samfélagsins. Eldsneytis-, raforku- og hitaveituöryggi væru hornsteinar atvinnulífs og daglegs lífs og þyrftu að vera tryggð áður en ráðist væri í önnur verkefni á borð við orkuskipti.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila