Þjóðin er á þeim tímapunkti þar sem fólki gengur því miður ekki vel að vinna saman, tala saman og leita lausna í mörgum aðkallandi stórum málum. Þar getur forseti komið inn í og leitt fólk saman og hjálpað til við að leita lausna. Þetta segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi en hún var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.
Halla segir að hún líti svo á að vald forseta sé í raun þrenns konar. Í fyrsta lagi hefur hann málsskotsrétt þar sem hann getur vísað málum til þjóðarinnar. Í öðru lagi hefur hann vald til þess að koma málum á dagskrá sem kannski gengur erfiðlega að ræða eða koma á framfæri og þannig nota sitt áhrifavald til þess að bæta þar úr. Í þriðja lagi geti forseti leitt ólíka hópa saman og stuðlað að samtali bæði hér innanlands sem á erlendum vettvangi ef þurfa þykir.
Kvíði og þunglyndi aukist hjá ungu fólki
Halla segir að þjóðin sé svolítið týnd og skorti framtíðarsýn þegar kemur að mörgum málaflokkum. Þar sé hægt að nefna Kirkjuna sem hafi fyllt upp í ákveðið hlutverk sem hún geri minna af í dag. Þetta leiði meða annars til þess að einmannaleiki meðal eldra fólks sé meiri en áður var og unga fólkinu líði illa. Það sé tvöföldum í tölum sem varða kvíða og þunglyndi, sjálfsvígum og sjálfsskaða sem sé alls ekki nógu gott og þar verði að gera betur. Hún telur að þar geti forseti nýtt sitt dagskrárvald og leitt fólk saman.
Forsetinn geti í þeim málum tekið samtal og samstarf þvert á hópa í samfélaginu til þess að gera bragarbót á þessum málum.
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan