Heimsmálin: Stríðstónninn stigmagnast og friðarviðræður ekki í sjónmáli

Stríðstónn meðal þjóðarleiðtoga hefur stigmagnast að undanförnu og ekki virðist vera nokkur áhugi á friðarviðræðum, að minnsta kosti virðist áhersla á stríð vera mun fyrirferðameiri en áherslur á frið. Í þættinum Heimsmálin, fréttir og fréttatengt efni af erlendum vettvangi í dag ræddi Gústaf Skúlason fréttamaður í Stokkhólmi í viðtali við Pétur Gunnlaugsson um stríðsógnina sem vofir yfir heiminum og hættuna á að átökin á milli Rússlands og Úkraínu geti breiðst út um heiminn.

Afstaða Joe Biden forseta Bandaríkjanna og hans helsta framlag til friðarmála þykir skjóta skökku við líkt og margra annara ríkja sem senda vopn eða bjóða fram aðstoð sína við að koma stórvirkum vopnum á átakasvæðin. Margir hafa bent á þá hættu sem steðjar af stríðinu og ekki síst hættuna sem beiting kjarnavopna hefur í för með sér. Nú síðast steig Aleksandar Vučić forseti Serbíu fram á heimsþingi sameinuðu þjóðanna þar sem hann varaði við þróuninni og sagði að ef ekki yrði gripið í taumanna myndu eiga sér stað meiriháttar heimsátök innan tveggja mánaða.

Það sem menn óttast hvað mest nú er að beiting kjarnorkuvopna verði að veruleika með tilheyrandi stigmögnun átaka og mögulegt allsherjar kjarnorkustríð milli Bandaríkjanna og Rússlands. Ljóst er að afleiðingarnar yrðu skelfilegar, mikill fjöldi myndi farast í kjarnorkuárasunum sjálfum, stór landsvæði yrðu óbyggileg um langa hríð og fjöldi fólks myndi einnig farast úr geislun seinna meir.

Ótalin er sú hungursneyð sem kjarnorkustríð myndi valda en í nýlegri frétt hér á vefnum kemur fram að Rutgers háskólinn í Bandaríkjunum hafi gert líkan sem sýnir að tveir þriðju hlutar mannkyns eða um 5 milljarðar manna munu deyja, að hluta til vegna kjarnorkusprenginga en einnig vegna sóts í andrúmsloftinu sem myndi loka fyrir sólina og eyðileggja uppskeru og valda gífurlegri hungursneyð.

Upp hafa sprottið vefsíður sem selja neyðarbirgðir af þurrkaðri matvöru, gasgrímum, geislamælum og búnaði til þess að sía vatn. Ein vefsíðan selur sem dæmi sett af slíkum mat sem ætti að duga samkvæmt upplýsingum allt að ár fram í tímann en sjá má vefsíðuna með því að smella hér.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila