Heimsmálin: Vesturlönd vilja að öll lönd heims fylgi „rules-based international order“

Vegna uppgangs Kína og vegna stríðsins í Úkraínu hafa Vesturönd lagt áherslu á að öll lönd í heiminum fylgi svokallaðri „rules-based international order“ með sameiginlegum stofnunum sem útkljá deiluefni milli þjóða. Þetta segir Hilmar Þór Hilmarsson prófessor við Háskólann á Akureyri en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar í Heimsmálunum.

Flest lönd í heiminum eru aðilar að stofnunum sem Bandaríkin höfðu forystu í að setja á fót eftir Bretton Woods fundin 1944. Þetta voru Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Sameinuðu þjóðirnar voru svo settar á fót 1945 og skömmu seinna 1947 var GATT samkomulagið undirritað, sem varð svo grundvöllur að stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar 1995.

Það var táknrænt að bæði Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru reistar höfuðstöðvar í Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna. Tekist var á um þetta á Bretton Woods fundinum 1944, en vegna sterkrar stöðu sinnar höfðu bandarísk stjórnvöld sitt í gegn. Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna risu svo líka í Bandaríkjunum, en að þessu sinni í New York.

Kalt stríð hófst í kjölfarið og Sovétríkin settu á fót sínar eigin stofnanir, en þegar Sovétríkin féllu urðu aðildarríki þeirra og fyrrum leppríki aðilar að þessum stofnunum sem Bandaríkin mótuðu að mestu.

Stórveldasamkeppnin – G7 löndin og BRICS hópurinn

Stríðsátökin í Úkraínu hafa ýtt Kína og Rússlandi saman í bandalag gegn vesturlöndum. BRICS hópinn sem leiddur er af Kína er að stækka. Segja má að BRICS hópurinn sé ákveðið mótvægi við G7 hópinn sem leiddur er af Bandaríkjunum. Í upprunalegu BRICS löndunum fimm, Brasilíu, Rússlandi, Indlandi, Kína og Suður Afríku búa nú yfir 3 milljarðar manna, en tæplega 800 milljónir í G7 löndunum (sjá Töflu 1). Með öðrum orðum um 10 prósent mannkynsins býr í G7 löndunum en um 40 prósent í BRICS löndunum. Þessi munur jókst enn meira við inngöngu 5 nýrra aðildarríkja í BRICS í upphafi ársins 2024.

Hagkerfi BRICS landanna stærra en G7

Á jafnvirðisgengi eru hagkerfi BRICS landanna stærri en G7 landanna. Þetta hefur leitt til harðnandi samkeppni og aukinnar spennu milli þessara hópa.
BRICS löndin vilja fara sínar eigin leiðir og setja sínar eigin reglur ólíkar þeim sem vesturlönd fylgja. BRICS löndin hafa líka sett á fót eigin stofnanir. Dæmi um þetta er stofnun sameiginlegs banka, Nýja Þróunarbankans (e. New Development Bank) til mótvægis við Alþjóðabankann. Þau hafa líka sett á fót varasjóð (e. Contingent Reserve Arrangement (CRA) – BRICS) til mótvægis við Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðinn. Höfðstöðvar Nýja þróunarbankans eru í Kína.

Rússar beina viðskiptum sínum til Asíu

Vesturlönd hafa beitt Rússland viðskiptaþvingunum vegna stríðsins í Úkraínu. Í framhaldinu hafa Rússar beint viðskiptum sínum í auknum mæli til Asíu. Kína og Indland græða t.d. á þessu ástandi með ódýru gasi og olíu frá Rússlandi. Bandaríkin eru tilneydd að vera í góðu sambandi við Indland þrátt fyrir þetta vegna Kína. Bandaríkin geta tæpast verið í stríði við Rússland og á sama tíma í hörðum deilum við bæði Indland og Kína. Sala á olíu frá Rússlandi til Indlands hefur margfaldast frá því innrásin í Úkraínu hóst og vesturlönd settu viðskiptabann á Rússland.

Þessi frétt er hluti af ítarlegri fréttaskýringu sem nálgast má í heild ásamt skýringarmyndum með því að smella hér

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila