Herða þarf reglur um jarðakaup erlendra auðmanna hér á landi

Reglur um jarðakaup útlendinga eru mun strangari í nágrannalöndum okkar heldur en hér og það gengur ekki upp að einstaka aðilar geti eignast landsvæði sem samsvarar heilli sýslu eins og gerst hefur á norðausturlandi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns Jóns Bragasonar lögfræðings og sagnfræðings í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Björn Jón segir að í sumum löndum séu lög á þann hátt að sett hafi verið ábúðarskylda gagnvart erlendum aðilum sem keypt hafa jarðir þó slíkt gangi líklega ekki upp hérlendis þar sem fjölmargar jarðir séu eyðijarðir. Það sé þó ljóst að reglurnar þurfi að vera harðari hvað þetta varðar.

Jarðir á Íslandi geta verið með dýrmætar auðlyndir
Hann bendir einnig á að í sumum löndum sé oft litið á jarðakaup erlendra aðila sem þjóðaröryggismál. Þá segir Björn að hér á landi sé mikilvægt að hafa í huga að mjög margar jarðir sem erlendir aðilar ásælist búi yfir miklum auðlindum sem og hlunnindum. Auðlindir slíkra jarða geti falist í vatnsuppsprettum bæði á heitu og köldu vatni, þar geti verið dýrmætar laxveiðiár og svo geta sumar jarðir falið í sér að þar sé fýsilegt að setja upp virkjanir eða vindorkuver.

Í nýrri grein sem Björn Jón ritaði á vefsvæði DV vekur hann athygli á því hversu laust er haldið um tauminn hér á landi hvað jarðakaup útlendinga varðar en í greinininni segir meðal annars:

„Í reynd eru þeim litlar takmarkanir settar. Þannig getur ráðherra veitt undanþágu fyrir eignarhaldi erlendra aðila á meiru en 1.500 hekturum en þó skal samþykki „að jafnaði ekki veitt ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð, nema umsækjandi sýni fram á að hann hafi sérstaka þörf fyrir meira landrými vegna fyrirhugaðra nota fasteignar,“ eins og það er orðað. Tíu þúsund hektarar er ekkert smáræði en til að setja það í samhengi samsvarar það ríflega átta Skálholtsjörðum.“ skrifar Björn.

Hætta á að heilu héruðin verði í eigu erlendra auðmanna

Hann bendir á að þær takmarkanir sem þó gilda hafi ekki staðið í vegi fyrir því að fyrirtækið Power Minerals Iceland hafi fyrir skömmu keypt Hjörleifshöfða fyrir 489 milljónir króna en umrætt landsvæði er 11.500 hektarar að stærð. Félagið sem keypti Hjörleifshöfða er að fullu í eigu þýska fyrirtækisins STEAG Beteilungsgesellschaft mbH í Essen.

Hætta sé á að ef ekkert verði að gert gætu heilu héruðin verið komin í eigu erlendra auðmanna áður en langt um líður. Hann segir að til þess að herða reglur væri til dæmis hægt að fara sömu leið og danir og gera kröfu um skýrt eignarhald og að menn geti ekki falið sig á bak við félög þegar þeir fjárfesti í jörðum og eigi þeir fasteign eða hluta í fasteign hér á landi skuli þeir eiga hér skattalegt heimilisfesti.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um málið hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila