Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir skyndilegt hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra vera ekkert annað en lýðskrum og popúlismi. Þetta kom fram í viðtali Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra við Vilhjálm í dag.
Vilhjálmur segir með ákvörðun sinni sé Svandís að láta undan þrýstingi háværs minnihluta.
„þannig lít ég á þetta mál. Ég held að meirihluti íslendinga sé hlynntur því að við nýtum okkar auðlindir með sjálfbærum hætti. Veiðileyfi séu gefin út á 150 langreyðum þar sem vísindaleg gögn Hafrannsóknarstofnunar séu höfð til hliðsjónar, þannig að ekki er verið að ganga á stofninn og engir almannahagsmunir séu í húfi sem kalli á eða réttlæti slíkt bann“segir Vilhjálmur.
Hann segir ákvörðunina gríðarlegt högg fyrir marga hans félagsmenn sem treystu á tekjur sem þeir hefðu haft af vertíðinni, tekjur sem nemi allt að tveimur milljónum króna. Til að mynda séu það háskólanemar sem hafi treyst á að komast á vertíðina og voru margir starfsmannanna mættir í Hvalfjörðinn tilbúnir að hefja störf þegar fregnir af ákvörðun matvælaráðherra bárust.
Hann segir afar ósáttur við að ákvörðunin hafi verið tekin svo skyndilega.
„maður kemur einfaldlega ekki svona fram við fólk“segir Vilhjálmur.
Í stjórnarskrá Íslands er ákvæði um atvinnufrelsi en þar er tekið fram að ekki megi hefta atvinnufrelsi manna nema með lögum og eingöngu ef af henni stafi almannahætta eða að almannahagsmunir séu í húfi. Ekki verður því séð að ákvörðun ráðherra standist sé horft til stjórnarskrárinnar.
Vilhjálmur segir veiðarnar skipta gríðarlegu máli fyrir samfélagið á hans svæði og því verður haldinn opinn fundur á Akranesi um málið á morgun.
„við hvetjum alla íbúa og nærsveitunga til þess að mæta og ráðherra sem og þingmönnum verður boðið þar sem þeir geta fengið að standa fyrir máli sínu“segir Vilhjálmur.
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan