Það að látið sé undan þrýstingi erlendis frá með því að banna hvalveiðar setur afar hættulegt fordæmi. Hætta sé á að þar verði ekki látið staðar numið og bann við veiðum á fleiri tegundum gæti orðið að veruleika. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra í viðtali við Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra í dag.
Fram kom í þættinum að engar þjóðir innan Evrópusambandsins legðu stund á hvalveiðar og með banninu væri til dæmis ákveðinni hindrun rutt úr vegi í átt að ESB aðild. Því sé málið í raun hluti af mun stærra máli sem fólk þyrfti að gera sér grein fyrir.
Sigmundur segist hafa ákveðnar áhyggjur af því fordæmi sem hvalveiðibannið hefur sett.
„þetta er hættulegt fordæmi, sérstaklega á hvaða forsendum ákvörðunin er birt. Það hafi verið fagráð sem skipað sé hagsmunaaðilum sem séu á móti hvalveiðum. Þegar það fordæmi er komið þá höfum við ekki lengur rétt á að nýta auðlindir okkar eins og við viljum. Þá munu menn koma næst og segja að við verðum að draga úr þorskveiðum því erlendu hagsmunaöflin segja að þar verðum við að draga úr“segir Sigmundur.
Hann bendir á að langt sé síðan hagsmunasamtök eins og Greenpeace og fleiri hafi byrjað að tala gegn þorskveiðum.
„og ef við erum búin að ganga frá málum þannig að eitthvað fagráð geti tekið ákvarðanir með þessum hætti, hvað ætlum við þá að segja ef fagráðið segir að við verðum að draga úr fiskveiðum?“ spyr Sigmundur.
Erlendir aðilar vilja stjórna hér
Hann segir áhrif erlendra afla á Íslandi, sem vilji stjórna hér málum, vera stærsta viðfangsefni nútíma stjórnmála á Íslandi og víðar.
„það er farið að taka ákvarðanir í sí auknum mæli annars staðar en í pólitíkinni sjálfri. Þær verða til hjá einhverjum stofnunum og oft aktivistahópum sem beiti sér og búi til einhverja lista sem ríkin keppast um að vera ofarlega á. Það eru svo einhverjir einstaklingar uti í bæ sem halda utan um þessa lista og gefa einkunn eftir því hversu vel stjórnvöld standa sig í að færa sig upp eftir þessum listum og hverjir fylgja aktivismanum best“ segir Sigmundur.
Í þættinum var einnig fjallað um Íslandsbankamálið en Sigmundur segir málið einkennast helst af því að það sé einhvers konar keppni í því að menn bendi hverjir á annan. Hann segir stóru myndina gleymast í málinu, það er að þegar gleymst hafi að byggja upp heilbrigt fjármálakerfi eftir að ríkið hafi tekið við bönkunum frá slitabúunum.
Þá var einnig fjallað um málefni hælisleitenda en hér í spilaranum að neðan má heyra ítarlegri umræðu um Íslandsbankamálið, málefni Hælisleitenda og fleiri mál.