Hvar er Ding Liren ríkjandi heimsmeistari í skák?

Í þættinum Við skákborðið ræddi Kristján Örn Elíasson við þá Gunnar Björnsson forseta Skáksambands Íslands og Ingvar Þór Jóhannesson FIDE meistara en þeir ritstýra jafnframt vefsíðunni www.skak.is.

Í þættinum var á léttu nótunum farið yfir skákárið 2023, bæði hér heim og erlendis, og reynt að skyggnast aðeins inn í framtíðina, þ.e. skákárið 2024.

Rætt var meðal annars um hið dularfulla hvarf Ding Liren ríkjandi heimsmeistara í skák en hann hefur ekki snert á viðartaflmönnum í 236 daga. Þeir félagarnir höfðu skýringar á hinu dularfulla hvarfi heimsmeistarans á reiðum höndum. Þeir rekja það til þess að strax eftir að hann hafði unnið heimsmeistaratitilinn í skák snemma á síðasta ári þá hafi hann teflt á skákmóti í Rúmeníu. Eftir jafnt og mjög erfitt einvígi við rússneska skákmeistarann Ian Nepomniachtchi um heimsmeistaratitilinn var hann orðinn dauðþreyttur og í raun algjörlega búinn á því. Ding gekk því skiljanlega mjög illa á mótinu í Rúmeníu og hafnaði í áttunda sæti. Í framhaldinu missti hann svo ástríðuna fyrir skák, tók sér hlé frá taflmennsku út árið 2023 og reyndi þannig að hvíla sig og finna gleðina hjá sér aftur.

Í viðtali við skákmiðilinn Chess.com í fyrradag staðfestir Ding að hann hafi átt við erfið veikindi að stríða allt undanfarið ár en sagði að sér liði mun betur núna. Heimsmeistarinn hefur skráð sig til leiks í aftar sterku Tata Steel skákmótinu sem fer fram í  Wijk aan Zee í Hollandi og hefst nú um helgina en mótið stendur til 28. janúar nk. Margir bíða nú spenntir eftir að sjá hinn nýja heimsmeistara setjast aftur við skákborðið eftir níu mánaða fjarveru.

Hér fyrir neðan má hlusta á þáttinn og nánari upprifjun úr skákheiminum:

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila