Hver einasta ríkisstjórn frá hruni hefur gætt hagsmuna fjármálafyrirtækja en ekki almennings

Hver einasta ríkisstjórn allt frá bankahruni hefur gætt hagsmuna fjármálafyrirtækja en ekki almennings og valdið hefur verið sett í hendur embættismanna sem þjóðin hefur aldrei kosið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur þingmanns Flokks fólksins í síðdegisútvarpinu í vikunni en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ófyrirgefanlegt að kenna verkalýðshreyfingunni og launum almennings um verðbólguna

Ásthildur segir það afar illa gert af embættismönnum og stjórnmálamönnum að kenna verkalýðshreyfingunni og háum launum almennings um verðbólguna enda sé almenningur ekki hátt launaður almennt. Með þessum orðum sé verið að kenna almenningi um klúður ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Vandanum sé síðan hent yfir á heimili landsins með eins grimmilegum hætti og hugsast getur og segir Ásthildur það vera í raun ófyrirgefanlegt, það hafi enginn rétt til þess að skapa þá stöðu að fólk missir heimili sín.

Hún segir að langflest heimili í landinu gætu lifað af verðbólguna en þau muni hins vegar ekki lifa af vaxtahækkanirnar. Hún bendir á að það séu fyrst og fremst fólkið sem sé á meðal launum og þar undir sem sé á leiðinni að fara að lenda í miklum vandræðum vegna vaxtahækkananna og það sé líklega sirka helmingur landsmanna. Það sé skammarlegt að kenna verkalýðshreyfingunni um því hennar hlutverk sé fyrst og fremst að sjá til þess að fólk geti lifað af á sínum launum en ekki að bakka upp ríkisstjórn í misvitrum ákvörðunum eða láta sína umbjóðendur taka afleiðingunum af klúðri ríkisstjórnar og Seðlabankans.

Búið að taka meðvitaða ákvörðun um að fórna heimilunum fyrir bankana

Arnþrúður bendir á að í janúar hafi lekið út upplýsingar um að til stæði að hækka vexti enn frekar og veltir þeirri spurningu upp hvers vegna fólki hafi ekki hreinlega verið sagt frá því að það stæði til. Ásthildur segir að hún segist telja að búið sé að taka meðvitaða ákvörðun um að fórna heimilunum fyrir bankana. Áshildur segir að hún hafi lengi sagt að blikur væru á lofti og hafi ítrekað bent á það á þingi að grípa þyrfti inn í og verja heimilin en það hafi í raun bara verið hlegið að því.

Aðspurð um hverjir stjórni þessari atburðarrás segir hún að í raun sé búið að færa embættismönnum sem enginn hafi kosið, til dæmis í Seðlabankanum völdin og þetta sé svo niðurstaðan. Arnþrúður benti á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sagt við seðlabankastjóra að halda áfram að hækka vexti og því væri spurningin hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri að stjórna þessu. Ásthildur segist ekki vita hvort svo væri en það væri vissulega rétt að þetta hefði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagt til við seðlabankastjóra.

Ríkisstjórnin stillir sér alltaf upp við hlið fjármálafyrirtækjanna

Það sé þó gegnum gangandi þráur eftir öllu að mati Ásthildar að hver einasta ríkisstjórn frá hruni hafi gætt hagsmuna fjármálafyrirtækja en ekki almennings og hafi fóðrað fjármálafyrirtækin með heimilum landsins.

„Ríkisstjórnin stillir sér alltaf upp við hlið fjármálafyrirtækjanna, það eru sem sé fjármálafyrirtækin, bankarnir, fjármálakerfið, fjárfestarnir og hlutabréfamarkaðir sem ríkisstjórnin ver einna helst“ segir Ásthildur.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila