Íbúar á Reykjanesi gætu þurft að búa við jarðhræringar næstu 400 árin

Þar sem nú er komin upp aukin virkni á Reykjanesi eins og fólk hefur fengið að kynnast síðustu ár má búast við því að eldvirknitímabilið gæti staðið yfir í allt að 400 ár. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Þorvaldar Þórðarsonar prófessors í bergfræði og eldfjallafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Þorvaldur segir að þó virknitímabilið muni standa yfir í öll þessi ár þýði það þó ekkert endilega að íbúar þurfi að búa við jarðskjálfta á hverju ári. Það geti einfaldlega verið mjög mismunandi á hverjum tíma. Það sé í rauninni ekkert hægt að spá fyrir um slíkt en það sé þó hægt að slá því föstu að á meðan tímabilið stendur yfir verði reglulega vart við jarðhræringar sem stundum geti leitt til eldgosa.

Getur haft áhrif á eldfjöll sem geta farið af stað núna

Þá segir Þorvaldur að það geti orðið jarðhræringar og eldgos á fleiri stöðum á landinu í náinni framtíð og það sé spurning hvaða áhrif þessar hræringar nú hafi á aðra staði. Mörg eldfjöll séu komin á tíma eins og sagt er og þar megi til dæmis nefna Heklu, Kötlu, Öskju, Grímsvötn og svo megi lengi telja.

“ við getum alveg búist við því að þær eldstöðvar taki við sér og það væri auðvitað vont að fá það ofan í annan atburð eins og það sem er að gerast núna “ segir Þorvaldur.

Athuga þarf vel skipulagsmál í framtíðinni

Aðspurður um hvað honum finnist um fyrirhugaða varnargarða við Svartsengi og hvort tímabært sé að setja þá upp strax segir hann að það geti breytt miklu að hafa þá klára, komi gos upp innan þeirra séu virkjunin og Bláa lónið hvort sem er farið en komi gos upp utan þeirra eigi menn möguleika á að verja þessa staði.

Þá segir hann að ekki ætti að byggja Hafnarfjörð lengra til suðurs út frá Völlunum því nær sem byggt nærri þekktum gosstöðum þeim mun meiri hætta sé fyrir þá sem búa þar. Þetta sé allt spurning um hvað menn telja vera ásættanlega áhættu, það eigi líka einnig við hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila