Íbúar í Skerjafirði afar ósáttir við fyrirhugaðar framkvæmdir

Fyrirhuguð stækkun íbúabyggðar í Skerjafirði (Nýji Skerjafjörður) mun hafa gríðarlega mikil og neikvæð áhrif á svæðið. Þetta var var meðal þess sem fram kom í máli Kjartans Gunnars Kjartanssonar og Eggerts Hjartarssonar forsvarsmanna Prýðifélagsins Skjaldar sem eru íbúasamtök ibúa Skerjafjarðar í síðdegisútvarpinu í vikunni en þeir voru gestir Péturs Gunnlaugssonar.

Þeir benda á að fyrirhuguð stækkun muni ekki einungis hafa slæm áhrif á flugvöllinn og flugumferð heldur sé um að ræða framkvæmdir sem geri ráð fyrir að um 3600 manns bætist við þann íbúafjölda sem þegar sé í Skerjafirði eða 1400 íbúðir með tilheyrandi umferð og nú þegar sé hún mikil.

Þeir benda á að í dag sé aðeins ein ökufær leið bæði inn í Skerjafjörðinnþar sem nú þegar fari um 2800 bílar þessa leið en samkvæmt deiliskipulaginu eigi að sexfalda þann fjölda. Þeir gagnrýna meirihluta borgarinnar harðlega.

„þessi meirihluti og þeir meirihlutar sem Dagur B. Eggertsson hefur verið í forsvari fyrir hefur aðeins tvö markmið, það er að losa sig við Reykjavíkurflugvöll og veita umferðinni í Reykjavík sem þyngst högg. Þetta geri meirihlutinn með því að setja allar tengibrautir á stofnbrautum á ís.“ segir Kjartan.

Þá geri framkvæmdir einnig ráð fyrir að byggingarsvæði verði búið til með landfyllingum, það eigi að gera með því að fylla upp í fjöru á svæðinu sem sé mjög verðmæt og mikilvægur hluti af þeirri náttúru og umhverfi sem svæðið bjóði upp á. Við þetta séu íbúar afar ósáttir svo vægt sé til orða tekið.

Á dögunum birti Prýðifélagið Skjöldur lista yfir níu atriði sem íbúarnir gera athugsemdir við en þau atriði má lesa hér að neðan.

1. Borgaryfirvöld hafa samþykkt nýtt deiliskipulag Skerjafjarðar sem gerir ráð fyrir 1400 íbúðum og þar með um 3500 íbúum, austur af núverandi hverfi. Nú búa í Skerjafirði um 700 manns og mun íbúafjöldinn því sexfaldast með hinni nýju byggð.

2. Ein ökufær leið er í og úr Skerjafirði og svo verður áfram. Allur akstur fólksbíla til og frá hinni nýju byggð mun fara um Suðurgötu og Einarsnes. Bílastæði verða af skornum skammti í hinni nýju byggð en það mun þrengja að stæðum eldri byggðar.

3. Samkvæmt umferðartalningu fara nú um 2800 ökutæki um Einarsnes á sólarhring. Ef sú umferð sexfaldast fer umferðarþunginn í 16.800 ökutæki með tilheyrandi umferðarþunga um Einarsnes, Suðurgötu, Njarðargötu og Hringbraut. Umferð um hverfið vegna þungaflutninga, vörubíla og jarðvegstækja mun aukast mjög á framkvæmdatímanum með tilheyrandi slysahættu fyrir börn og aðra íbúa Skerjafjarðar.

4. Á hinu fyrirhugaða byggingarsvæði er einhver mengaðasti jarðvegur borgarinnar. Gert er ráð fyrir að aka þurfi 13000 vörubílsförmum af þeim hroða gegnum hverfið okkar, um Einarsnes, Suðurgötu, Njarðargötu, Hringbraut og Miklubraut, eða þá að honum verður mokað upp í stóran hól á svæðinu og hann látinn veðrast þar, nokkra tugi metra frá núverandi íbúabyggð. Ekkert liggur fyrir um hversu heilsuspillandi það getur reynst íbúunum.

5. Hin nýja byggð gerir ráð fyrir umtalsverðri landfyllingu í fjöru Skerjafjarðar. Fjaran hefur hátt verndargildi vegna mikils fjölbreytileika lífríkis og er ein af fáum náttúrulegum fjörum sem eftir eru í Reykjavík. Strandlengja hins landfræðilega Seltjarnarness að norðanverðu, frá Eiðsgranda og inn að Elliðaám er nánast alfarið manngerð. Fjaran að sunnanverðu frá golfvellinum á Nesinu og inn í Fossvog er hins vegar náttúruleg. Slík landfylling yrði því stefnumótandi aðför að náttúru- og umhverfisvernd á höfuðborgarsvæðinu. Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun ríkisins, Hafrannsóknarstofnun og ýmis náttúruverndarsamtök hafa því harðlega mótmælt þessum áformum.

6. Í nýútkominni skýrslu sérfræðinga um áhrif nýrrar byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar, er fullyrt að hún muni draga úr flugöryggi vallarins og lagt til að farið verði í frekari rannsóknir. Þetta flugöryggi varðar einnig öryggi þeirrar byggðar sem liggur að flugvellinum. Borgarstjóri og formaður borgarráðs hafa látið hafa eftir sér villandi umsagnir um skýrsluna og vilja hefja framkvæmdir án tafar.

7. Samgöngunefnd Alþingis kallaði stjórnarmenn úr Prýðiflélaginu Skildi og úr Íbúasamtökum Miðbæjarins til fundar þar sem leitað var eftir afstöðu íbúa í Skerjafirði og Miðbænum til þessarra áforma.

8. Borgaryfirvöld hafa aldrei viljað kynna þessi skipulagsáform fyrir Skerfirðingum á sómasamlegan hátt og hafa ætíð hundsað allar athugasemdir og andmæli frá Prýðifélaginu Skildi, allt frá því hafist var handa um rammaskipulag. Ljóst er að borgaryfirvöld líta svo á að Skerfirðingum komi þessi áform ekkert við.

9. Borgaryfirvöld stefna að því að láta rífa flugvallargirðinguna á allra næstu dögum og í framhaldinu verður hafist handa við jarðvegsvinnu.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila