Brjótist út stríð á milli Rússlands og NATO er Ísland augljóst skotmark í þeim átökum enda séu íslensk yfirvöld búin að feta þá vafasömu slóð að vera komin í stríð við Rússa með vopnakaupum og hernaðarlegum yfirlýsingum sínum gagnvart Rússum. Þetta segir Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi og stofnandi Friðar 2000 en hann var gestur í þætti Kristjáns Arnar Elíassonar.
Ástþór bendir á að á Ísland sé birgða og þjónustustöð fyrir kjarnorkukafbáta Bandaríkjamanna auk þess sem hér sé talsverður fjöldi Bandarískra hermanna sem hafist við í kjarnorkubyrgi á Keflavíkurflugvelli. Það sé til dæmis ein ástæða þess að Ísland sé skotmark Rússa komi til styrjaldar á milli Rússlands og NATO enda verði Ísland í raun miðstöð Bandaríkjanna í slíkum hernaði.
Ísland skotmark
Á meðan hermenn Bandaríkjahers sem séu hér á landi séu varðir inni í kjarnorkubyrginu sé almenningur á Íslandi algerlega óvarinn gegn því að fá á sig kjarnorkusprengju. Þá sé hættan fyrir Ísland einnig sú að ef Rússar vilji senda sterki skilaboð til NATO um að hætta útþennslu sinni þá sé Ísland hernaðarlega séð eitt líklegasta skotmarkið fyrir kjarnorkusprengju þar sem hér búi fáir og því yrði skaðinn minni en ef karnorkusprengju yrði til dæmis varpað á London.
Með því að kaupa vopn er Ísland komið á hála braut
Því sé afar mikilvægt að Íslendingar geri sér grein fyrir því að þeir séu komnir á mjög hála braut með því að styðja vopnakaup sem miða að því að nota gegn Rússum og einmitt þess vegna sé afar mikilvægt að á Bessastöðum sé forseti sem tali máli friðar og geri allt sem í hans valdi stendur til þess að afstýra slíkum hörmungum sem geti vofað yfir Íslandi.
Hlusta má á nánari umfjöllun í spilaranum hér að neðan