Ísland meðal tuttugu mest nýskapandi ríkja heims

Ísland situr í tuttugasta sæti lista Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO) yfir mest nýskapandi ríki heims. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu WIPO um alþjóðlega nýsköpunarvísitölu (e. Global Innovation Index). Sviss, Bandaríkin og Svíþjóð sitja í efstu sætum listans líkt og í fyrra. 

Ísland fellur um þrjú sæti á listanum milli ára en árið 2021 sat Ísland í 17. sæti. Hið tölfræðilega öryggisbil í skýrslunni í ár sýnir þó að Ísland er í 15.-20. sæti á listanum. Af 39 Evrópulöndum sem nýsköpunarvísitalan nær til situr Ísland í 12. sæti. Sem fámenn þjóð í alþjóðlegu samhengi dregur Ísland stutt strá þegar kemur að ýmsum mælikvörðum Alþjóðahugverkastofunnar við útreikning vísitölunnar, en t.a.m. eru mælikvarðar ekki sniðnir að auðlindaríkum smáþjóðum.

Almennt skorar Ísland yfir meðaltali í þáttum sem tengjast stofnunum, innviðum, þroska markaðar (e. business sophistication), afurðum þekkingar og tækni og afurðum sköpunar. Þá er Ísland er í 1. sæti þegar horft er til almennrar notkunar upplýsingatækni, rafmagnsframleiðslu á íbúa, hlutfalls erlendrar fjárfestingar í rannsóknum og þróun af þjóðarframleiðslu, fjölda birtra vísindagreina á íbúa og fjölda framleiddra kvikmynda á íbúa. Ísland skorar hins vegar lágt fyrir þjóðarframleiðslu miðað við orkunotkun (129. sæti), stærðar innanlandsmarkaðar miðað við þjóðarframleiðslu (129. sæti), hlutfalls erlendrar fjárfestingar af þjóðarframleiðslu (127. sæti) og hlutfalls háskólanema sem útskrifast úr verkfræði-, raunvísinda- og tæknigreinum (85. sæti).

Í skýrslu Alþjóðahugverkastofnunarinnar um nýsköpun í heiminum sem gefin er út árlega samhliða listanum kemur fram að fjárfesting í rannsóknum og þróun, sem og önnur fjárfesting sem er mikilvæg fyrir nýsköpun, jókst umtalsvert árið 2021, þrátt fyrir  COVID-19 faraldurinn. Fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum og þróun jókst t.d. um 10% milli ára, mest í rafmagns- og upplýsingatæknibúnaði, hugbúnaðar- og upplýsingatækniþjónustu, lyfja- og líftækni og í byggingar- og málmiðnaði. Fjöldi áhættufjárfestingarsamninga jókst um 46% á árinu og hafa þeir ekki verið fleiri síðan á tímum netbólunnar á síðasta áratug síðustu aldar. Öfugt við það sem búast mætti við vegna faraldursins hefur birtum vísindagreinum og skráningum hugverkaréttinda einnig fjölgað. Aukinni fjárfestingu hefur þó ekki fylgt meiri framleiðni og vísbendingar benda til þess að hægt hafi á innleiðingu tækninýjunga þrátt fyrir aukna fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Líklegt er talið að áhrifum faraldursins sé um að kenna.

Sjá nánar með því að smella hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila