Íslandsbankamálið: Rannsóknarnefnd hefði átt að vera skipuð strax

Það hefði farið betur á því að rannsóknarnefnd hefði verið skipuð strax til þess að fara yfir söluna á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í stað þess að fela ríkisendurskoðanda að fara yfir málið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigmars Guðmundssonar þingmanns Viðreisnar í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Sigmar segir skýrsluna afar dökka og það sé afar leitt að sjá að ríkisendurskoðandi hafi þurft að gera svo margháttaðar og margvíslegar athugasemdir svo marga þætti sölunnar eins og jafnræði kaupenda og hvernig upplýsingagjöf til þingsins var háttað og allt þar á milli.

Gengur ekki að sópa skýrslunni undir teppið

Hann segir einnig skuggalegt að sjá að menn hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri orðsporsáhættu sem fylgdi sem og að hlutabréf í bankanum hafi nánast hætt að seljast nokkrum dögum fyrir sölu bréfanna og það veki upp spurningar hvort upplýsingar hafi lekið út um útboðið. Hann segir niðurstöðuna þess eðlis að það gangi einfaldlega ekki upp að sópa skýrslunni undir teppið og láta sem ekkert sé og málið kalli á viðbrögð og umræðu.

Hann segir að við lestur skýrslunnar vakni upp margar spurningar og ábendingar í skýrslunni séu margar hverjar áhugaverðar og leita þurfi frekari skýringa við, til dæmis hvers vegna svona mikil áhersla hafi verið lögð á erlenda fjárfesta sem margir hverjir hafi svo stuttu eftir kaupin hafi svo selt hlutinn aftur og hirt mismuninn.

Varpa þarf ljósi á hverjir keyptu

Aðspurður um að í ljósi þess að aðkoma erlendra fjárfesta hafi jafnvel haft áhrif á lokaverðið, hvort ekki sé nauðsynlegt að varpa ljósi á hverjir erlendu aðilarnir væru og hvort þeir séu í raun erlendir segir Sigmar að það sé að sjálfsögðu nauðsynlegt.

“ en svo er annað í þessu, það er hvort við séum 100% örugg um hverjir eru á bak við innlendu kaupin líka“segir Sigmar.

Hann segir að þetta sé einmitt eitt af því sem aflaga gæti farið í því ferli sem viðhaft var við söluna og segir Sigmar að þingmenn Viðreisnar hafi gagnrýnt að þetta hafi verið sett upp sem nokkurs konar tilraun til þess að laða að langtíma innlenda og erlenda fagfjárfesta. Svo hafi komið upp úr dúrnum að þó margir eigi enn hlut sinn í bankanum þá sé samt sem áður búið að selja úr honum vænan hlut líka.

„þannig það er eins og einhverjir af þessum aðilum hafi hreinlega komið inn í útboðið, hirt afsláttinn og kannski eitthvað aðeins meira og farið svo út aftur sem var auðvitað ekki meiningin því ástæðan fyrir því að þetta fyrirkomulag var valið var að reyna að fá einhverja stærri og sterkari fjárfesta að borðinu „segir Sigmar.

Skrítið að ráðherra ákveði farveg málsins

Sigmar segir ekki heppilegt að ráðherrar vísi máli sem þessu til ríkisendurskoðanda því hann sé nokkurs konar trúnaðarmaður Alþingis og sé partur af því eftirlitskerfi sem þingið hefur með framkvæmdavaldinu.

„Mér finnst skrítið að ráðherrann ákveði þann farveg sem málið er sett í því það finnst mér að þingið eigi að gera“segir Sigmar.

Lindarhvolsskýrsluna verður að birta

Hann segir einnig mjög nauðsynlegt að Lindarhvolsskýrslan verði birt, ekki síst í ljósi þess sem á undan sé gengið.

Sigmar segir að í Lindarhvolsskýrslunni séu upplýsingar sem varði svo ríka hagsmuni að mjög nauðsynlegt sé að fá að sjá þá skýrslu enda væri það til lítils að búa til skýrslur um mál sem ekki mætti svo birta.

Aðspurður um hvort honum þyki ásættanlegt að skýrslan sé tilbúin en að forseti Alþingis neiti að afhenda hana segir Sigmar:

„nei ef það liggja fyrir skýrslur um tiltekin álitaefni og jafnvel á bak við mikil rannsókn þá auðvitað þurfum við að fá hana“segir Sigmar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila