Íslandsbankaskýrslan birt: Skortur á upplýsingum, gagnsæi og þekkingu – Lestu skýrsluna hér

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur verið birt á vef ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni kemur fram þung gagnrýni á hvernig staðið var að aðdraganda sölunnar, ferlið hafi bæði verið ógagnsætt og það einkennst af upplýsingaskorti bæði af hálfu Bankasýslunnar sem og Fjármaála og efnahagsráðuneytisins. Þá höfðu þeir aðilar sem ætlað var að finna fjárfesta litla sem enga reynslu á því sviði.

Í skýrslunni segir meðal annars:

„Ríkisendurskoðun telur gagnrýnivert að kynningar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Bankasýslu ríkisins á tilboðsfyrirkomulaginu fyrir Alþingi og almenningi hafi ekki verið til þess fallnar að varpa fullnægjandi ljósi á raunverulegt eðli tilboðsfyrirkomulagsins. Að mati Ríkisendurskoðunar hefðu ítarlegri kynningar getað leitt til þess að söluferlinu hefði verið veitt meiri formfesta og, eftir atvikum, settar þannig skorður að hægt hefði verið að forða þeim aðstæðum sem urðu tilefni þess að eftir úttekt embættisins var óskað.“

Þá segir að Ríkisendurskoðun telji jafnframt að upplýsa hefði þurft með afdráttarlausum hætti í minnisblaði Bankasýslunnar, greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra og í kynningum fyrir þingnefndum Alþingis, hvað fólst í settum skilyrðum um hæfa fjárfesta, þ.e. hvers eðlis væntanlegur kaupendahópur á eignarhlut ríkisins yrði. Með því að notast við hugtökin „hæfir fjárfestar“ eða „hæfir fagfjárfestar“ varð hætta á að nefndarmenn sem fjölluðu um málið, og aðrir sem vildu kynna sér áform um söluferlið, stæðu í þeirri trú að þar væri eingöngu um að ræða fjárfesta sem hafa að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum. Fram kemur í skýrslunni að sú upplýsingagjöf hefði þó verið þeim takmörkunum háð að þátttaka lítilla einkafjárfesta í söluferlinu hafi komið Bankasýslunni á óvart.

Ríkisendurskoðun telur einnig að Bankasýslan hafii brugðist hlutverki sínu:

„Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar að Bankasýslan hafi í aðdraganda söluferlisins ekki sinnt með fullnægjandi hætti hlutverki sínu skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/2009 um stofnunina að tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi
þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings. Stofnuninni tókst ekki að miðla upplýsingum um fyrirhugaða sölu með skýrum og árangursríkum hætti. Sama má segja um upplýsingagjöf fjármála- og efnahagsráðuneytis við birtingu greinargerðar ráðherra vegna framhalds á sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.“

Þá segir jafnframt í skýrslunni:

„Innlendir umsjónaraðilar, söluráðgjafar og söluaðilar Bankasýslunnar höfðu litla ef nokkra reynslu af söluferli af því tagi sem hér um ræðir. Bankasýsla ríkisins gaf þessum aðilum engin bein fyrirmæli eða leiðbeiningar um framkvæmd sölunnar. Þeim var bent á ákvæði laga nr. 88/2009, laga nr. 155/2012, ákvörðun ráðherra frá 18. mars 2022 um meginreglur og markmið með sölumeðferðinni og minnisblað stofnunarinnar frá 20. janúar 2022. Þá var þeim bent á að viðhalda trúnaði um þátttöku þeirra í mögulegu söluferli og hafa ekki samband við fjárfesta fyrr en opinber tilkynning um sölu yrði birt. Ríkisendurskoðun telur að Bankasýsla ríkisins hafi vanrækt að tryggja að vinna umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila væri samstillt og skilvirk“

Smellt hér til þess að lesa skýrsluna

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila