Íslandsbankaskýrslan: Bjarni Benediktsson á að segja af sér

Bjarni Benediktsson á að segja af sér í ljósi niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka enda beri Bjarni pólitíska ábyrgð á málinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ástu Lóu Þórsdóttur þingmanns Flokks fólksins í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ásta Lóa segir vart stein standa yfir steini í öllu söluferlinu og bendir á að hún hafi tekið saman lista yfir þau atriði sem séu afar gagnrýniverð. Til dæmis að Bankasýslan hafi ekki haft neina reynslu af tilboðsfyrirkomulagi eins og notast hafði verið við í þessu tilfelli, vegna annmarka á framkvæmdinni hafi eftirspurn verið vanmetin við ákvörðun við leiðbeinandi lokaverð, ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til mögulegrar orðsporsáhættu, að eftirspurn hafi gefið tilefni til hærra lokaverðs en miðað hafi verið við svo eitthvað sé nefnt.

Þá hafi óljósar upplýsingar legið fyrir um söluferlið og því hafi efnahags og viðskiptanefnd ekki fengið þær upplýsingar eins og lög geri ráð fyrir.

Aðspurð um hvort kaupendur hafi verið handvaldir segir Ásta að það sé ekki að minnsta kosti ljóst hvernig hafi verið valið en svo virðist sem kaupendur hafi verið metnir sem hæfir fjárfestar jafnvel eftir að salan hófst. Þá hafi menn haft samband og sagst vera hæfir fjárfestar og það skoðað lítillega og þeir teknir inn sem hæfir fjárfestar. Því megi segja að mati Ástu að menn hafi verið handvaldir.

Söluaðilar höfðu samband við sína menn

Þegar Ásta var spurð um hverjir hafi ákveðið hverjir fengju að vera sölufulltúar segir Ásta að það hljóti að hafa verið Bankasýslan en þó þori hún ekki að fullyrða um að svo sé. Ljóst sé að fjármálafyrirtæki sem hafi sinnt því að leita kaupenda hafi fyrst og fremst haft samband við fólk af listum yfir sína viðskiptamenn.

Ekki vitað hvort lánað var fyrir kaupunum

Ásta segir að ekki liggi heldur fyrir hvort kaupendur hafi fengið lán hjá sínum fjármálafyrirtækjum fyrir kaupunum, það komi að minnsta kosti ekkert fram í skýrslunni hvort svo hafi verið en Ásta telur að rannsókn á því sé líkega fyrir utan umboð þess sem ríkisendurskoðandi geti kannað. Hans hlutverk sé fyrst og fremst að varpa ljósi á undirbúning og framkvæmd sölunnar og einna helst þá atburðarrás sem á sér stað á söludegi.

„skýrslan tekur sem sé til þess hvernig hafi verið staðið að sölu tilgreinds eignarhluta út frá lögum og skilgreindum markmiðum sölunnar og markmiðum um góða stjórnsýsluhætti. Það sé ekki hlutverk hans að svara spurningum um hvort rétt hafi verið að selja í bankanum á umræddum tímapunkti eða hvort þeir sem keyptu hefðu yfirleitt átt að fá að kaupa, þetta er eitthvað sem Fjármálaeftirlitið er að rannsaka og vonandi fáum við niðurstöðu úr því áður en langt um líður“ segir Ásta.

Ekkert vitað hverjir eru á bak við þá erlendu sjóði sem keyptu

Ásta segir ekkert fjallað í skýrslunni um þá erlendu aðila sem salan virðist hafa sérstaklega hönnuð fyrir en segir að þegar hún hafi séð listann yfir þá aðila í vor þá hafi þar verið um að ræða erlenda sjóði af ýmsu tagi en engar upplýsingar liggi fyrir um hverjir séu á bak við þá sjóði þannig eðlilegt sé að velta þá fyrir sér hvort það hafi jafnvel verið Íslendingar sem voru að baki þeim sjóðum.

„það er bara ekkert vitað og af því það var miklu fórnað fyrir aðkomu þessara erlendu sjóða þá er þetta er eitt af því sem þarf að upplýsa um og ætti í raun og veru að liggja fyrir“segir Ásta.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Ástu Lóu en það byrjar á mínútu 30

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila